Guð blessi Ísland

Laugardaginn 6. október 2008 gerðist sá fáheyrði atburður að forsætisráðherra landsins óskaði eftir því að fá að ávarpa þjóðina í beinni útsendingu í sjónvarpi. Almenningur flykktist að skjánum. Flestir þóttust vita að nú væri eitthvað alvarlegt á seyði, líklega tengt þeim óróa á fjármálamarkaði sem einkennt hafði dagana og vikurnar á undan.

Það gekk eftir. Geir H. Haarde sagðist hafa óskað eftir að ávarpa þjóðina enda steðjuðu að henni miklir erfiðleikar. Eftir stórkostlega útrás og vöxt íslensku bankanna hefði djúp kreppa á alþjóðamarkaði stefnt þeim í mikla hættu. Þeir væru einfaldlega of stórir til þess að svona lítið hagkerfi gæti staðið af sér svona hamfarir án aðstoðar.

Hann sagði að ríkisstjórnin, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hefðu unnið baki brotnu við lausn þeirra gríðarlegu erfiðleika sem steðjuðu að bönkunum og að sú vinna væri í góðu samstarfi við bankana sjálfa auk þess sem aðilar vinnumarkaðar og lífeyrissjóðir hefðu verið kallaðir að borðinu. Hann benti þó á að þær stærðir sem um væri að ræða væru gríðarlegar. Bandaríska kreppan, sem hefði þótt ærin, hefði þrátt fyrir allt aðeins þýtt björgunaraðgerðir upp á einn tuttugasta af landsframleiðslu. Íslensku bankarnir skulduðu margfalda landsframleiðslu landsins. Og hann bætti við:

„Sú hætta er raunveruleg, góðir landsmenn, að íslenska þjóðarbúið myndi, ef allt færi á versta veg, sogast með bönkunum inn í brimrótið og afleiðingin yrði þjóðargjaldþrot.“

Hann benti á að tilraunir til bjargar hefðu misheppnast, lánalínur væru lokaðar og að Kauphöll Íslands hefði verið lokað þá um morguninn. Búið væri að semja neyðarlög og stjórnarandstaðan hefði samþykkt að afgreiða þau hratt og vel. Þar með væru stjórnvöld komin með í hendur þau tæki sem möguleg væru til að afstýra algjörri neyð. Hann lofaði ennfremur að innistæður í bönkum væru tryggar og að allt yrði gert til að í landinu starfaði virkt bankakerfi.

Forsætisráðherrann ræddi síðan mikilvægi þess að láta ekki örvæntinguna ná valdi á sér. Hann sagði:

„Ef einhvern tímann hefur verið þörf á því að íslenska þjóðin stæði saman og sýndi æðruleysi andspænis erfiðleikum – þá er sú stund runnin upp. Ég hvet ykkur öll til að standa vörð um það sem mestu máli skiptir í lífi hvers einasta manns, standa vörð um þau lífsgildi sem standast það gjörningaveður sem nú geisar.“

Ræðunni lauk svo á orðum sem löngu eru orðin fræg. Miklu frægari en inntakið í ræðunni. Hann endaði á að biðja Guð að blessa Ísland.

Í hönd fór tímabil sem að sumu leyti var mjög ólíkt þeim tíma sem á undan hafði farið. Einhverskonar samþykki varð til í samfélaginu um að eitthvað verulega mikið hefði bilað í lýðveldinu Íslandi. Það gæti ekki ekki verið eðlilegt að ríki kæmust í þá aðstöðu að verða næstum gjaldþrota. Ýmsir töldu hreinan óþarfa að biðja Guð að blessa Ísland – þjóðin ætti að passa sig sjálf. Örfáum dögum eftir ávarp forsætisráðherrans safnaðist fólk fyrir framan við Alþingishúsið til mótmæla. Þrátt fyrir óskir Geirs um samstöðu blossaði fljótt upp mikil reiði. Bónusfáni var dreginn að hún á þinghúsinu og áhlaup var gert á lögreglustöðina við Hlemm. Rúður voru brotnar í Alþingishúsinu og lögreglumenn voru grýttir með eggjum og öðru lauslegu. Táragasi og kylfum var beitt gegn mótmælendum og það gekk á endanum svo langt að múgur réðst að bíl forsætisráðherra og eldri maður smíðaði litla sprengju heima hjá sér sem hann sprengdi rétt hjá Stjórnarráðinu.

Flestir Íslendingar höfðu ekki lifað svona tíma. Þekkt var að upplausnarástand hafði myndast við inngöngu Íslands í Nató um miðja síðustu öld þar sem táragasi var beitt og mótmæli höfðu verið nokkuð róttæk gegn áformum um stóriðju og virkjanir á Austurlandi. En þetta var eitthvað nýtt. Reiðin var mikil og óttablandin.

Alþingismönnum var ljóst að eitthvað þurfti að gera til að auka trú fólks á hinar lýðræðislegu stofnanir. Traust á Alþingi sjálft hrundi úr rúmum 40% í rúm 10% á stuttum tíma. Krafan um lýðræðisumbætur var skýr. Mótmælahópurinn á Austurvelli beindi spjótum sínum að ýmsum þáttum sem taldir voru einkennandi fyrir vanhæfni og spillingu í stjórnkerfinu.

Fyrstu formlegu viðbrögð Alþingis til lýðræðisumbóta var skipun þriggja manna rannsóknanefndar sem taka átti til skoðunar aðdraganda falls bankakerfisins og skylda atburði. Frumvarp um störf nefndarinnar var samþykkt á Alþingi 12. desember, rúmum tveim mánuðum eftir ræðu forsætisráðherra. Daginn eftir mættu mótmælendur enn á Austurvöll og kröfðust breytinga.

Auk þess var skipaður vinnuhópur sem hafði það hlutverk að rannsaka hvort hrunið (eins og farið var að kalla það) ætti sér uppruna í starfsháttum og siðferði. Í þeim hópi sátu Vilhjálmur Árnason heimspekiprófessor, Salvör Nordal forstöðumaður Siðfræðistofnunar HÍ og Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisráðs og fyrrverandi þingmaður.

Tólfta apríl 2010 kom Rannsóknarskýrslan út. Í henni var áfellisdómur yfir íslensku samfélagi í aðdraganda hruns. Bankarnir voru harðlega gagnrýndir fyrir ábyrgðarlaust framferði. Sérstaklega var gagnrýnt hvernig þeir höfðu staðið að lánasöfnun og þeirri áhættu sem tekin var í rekstri þeirra. Nokkuð sem forsætisráðherrann, sem nú hafði hrakist frá völdum eftir að ríkisstjórnin hafði sprungið, hafði kallað „ævintýri“ í ræðunni frægu. Þá voru stofnanir taldar veikar, undirmannaðar og hikandi við að beita valdi sínu. Stjórnmálamenningin þótti slök og í sérstökum siðfræðihluta skýrslunnar var samfélagið allt dregið til ábyrgðar. Í niðurlagi Vilhjálms, Salvarar og Kristínar sagði:

„Af þessu má sjá að vandinn er víðtækur, djúpstæður og kerfislægur. Skýrsla vinnuhópsins um siðferði og starfshætti sýnir í hnotskurn að brýn þörf er fyrir siðvæðingu á fjölmörgum sviðum í íslensku samfélagi. Þótt margir einstaklingar hafi vissulega gerst sekir um ámælisverða hegðun og á því þurfi að taka með viðeigandi hætti, er varasamt að einblína á þá. Frá siðferðilegu sjónarmiði er til lengri tíma litið brýnast að treysta lýðræðislega innviði samfélagsins og styrkja stjórnkerfið; bæta þarf viðskiptasiðferði, stjórnsiði og vinnulag, efla fagmennsku og siðferðisvitund. Styrkja þarf skilyrði siðferðilegrar rökræðu meðal borgaranna um sameiginleg hagsmunamál sín. Leggja þarf áherslu á réttnefnda samfélagsábyrgð og hamla gegn sérhagsmunaöflum og þröngri einstaklingshyggju. Siðvæðing íslensks samfélags ætti einkum beinast að því að styrkja þessa þætti og það er langtímaverkefni sem krefst framlags frá fólki á öllum sviðum samfélagsins.“

Jóhanna Sigurðardóttir, nýr forsætisráðherra Íslands, lagði þunga áherslu á að tækifærið yrði nýtt og að þjóðin skyldi fá að taka þátt í að setja ríkinu nýja stjórnarskrá og ný viðmið. Fram að þessu hafði verið nokkuð mikill samhljómur um það að veruleg ástæða væri til umbóta. Smám saman fóru þó að heyrast gagnrýnisraddir. Sumum þótti skýrsla rannsóknarnefndar ósanngjörn í garð þeirra sem fengu þar harðasta dóma og alls ekki öllum leist vel á það að fara mikið að krukka í stjórnarskránni.

Þó fór svo að kallað var til Þjóðfundar þann 6. nóvember árið 2010. Fyrir fundinum lá að kafa í stjórnarskrá lýðveldisins, átta sig á sjálfsmynd þjóðarinnar og þeim kröfum sem hún vildi gera til sjálfrar sín í framhaldinu. Handahófsúrtak var gert úr þjóðskrá og tóku þátt í fundinum 950 manns á aldrinum 18 - 91 árs auk aðstoðarmanna. Unnið var á borðum eftir fyrirfram ákveðnu skipulagi þar sem dregin voru fram aðalatriði stjórnarfarsvitundar þjóðarinnar. Að fundi loknum vann 50 manna hópur áfram að því að taka saman niðurstöðurnar.

Þau hugtök sem nutu mest stuðnings á þjóðfundi voru jafnrétti, lýðræði, heiðarleiki, réttlæti, mannréttindi, virðing og frelsi. (mynd)

Þessar niðurstöður, sem voru æði viðamiklar þegar yfir lauk, fóru svo til sérstakrar stjórnlaganefndar sem dró þær saman og skýrði – m.a. út frá lögfræðilegum álitamálum. Þar var sjónum til dæmis beint að hlutverki jafnréttis eða jafnræðis þegar kemur að kosningaskipan.Stjórnlaganefnd dró í efa að það fyrirkomulag sem lengi hefur tíðkast á Íslandi að atkvæðafjöldi á bak við þingmenn sé mismunandi eftir því úr hvaða kjördæmi þeir koma stæðist alþjóðlega skilmála og -lög.

Í framhaldinu stóð til að þjóðin kysi fulltrúa á Stjórnlagaþing. Gríðarlegur fjöldi fólks bauð sig fram til þingsetu, bæði þekktir og óþekktir. Frambjóðendur fengu að kynna sig á vefsíðum og í örviðtölum í útvarpi auk þess sem smíðaður var af einkaaðilum frambjóðendavísir sem bar svör kjósenda saman við svör frambjóðenda og benti á líkindi.

Kosningafyrirkomulagið var óvenjulegt og flóknara en Íslendingar voru vanir. Stuðningur við frambjóðendur reiknaðist til stiga eftir því í hvaða sæti kjósendur settu þá og atkvæði í sæti sem ekki nýttust færðust yfir á önnur sæti eftir reiknireglum. Hver kjósandi gat  forgangsraðað allt að 25 frambjóðendum á kjörseðli sínum.

Kosningarnar fóru fram seint í nóvember 2010. Kosningaþátttaka var 36,77% og að endingu þýddi það að til að ná kjöri þurfti a.m.k. 3.200 atkvæði. Í janúar árið eftir dæmdi Hæstiréttur kosningarnar ólöglegar vegna ýmissa galla á framkvæmd þeirra.

Þrátt fyrir það ákvað ríkisstjórnin að kalla þá sem hlutu kosningu saman til þess starfs að endurskoða stjórnarskrána. Í stað þess að kalla hópinn stjórnlagaþing var nú rætt um stjórnlagaráð. Niðurstaða þess yrði ráðgefandi og færi svo til afgreiðslu inni á Alþingi. Einn fulltrúi kaus að taka ekki sæti í ráðinu vegna deilna um lögmæti kosninganna. Athygli vakti að næstum allir ráðsfulltrúar voru þekkt fólk úr samfélaginu.

Stjórnlagaráð starfaði frá því í apríl og fram í júlí árið 2011. Á þeim tíma tók það við athugasemdum frá almenningi og hélt fundi sem sendir voru út á neti auk þess sem áhorfendum var boðið að vera viðstaddir. Í júlí tókst ráðinu að semja frumvarp að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland sem m.a. byggði á þekkingu ráðsfulltrúa á lögum og stjórnlagarétti, upplýsingum sem ráðið aflaði sér og þeirri stefnumörkun sem átt hafði sér stað á Þjóðfundi og í meðförum stjórnlaganefndar. En nefndin hafði haft það hlutverk að safna upplýsingum og skýringum fyrir ráðið.

Ýmsir höfðu reiknað með að Alþingi myndi samþykkja frumvarpið og senda svo í dóm þjóðarinnar. Málið reyndist flóknara en svo. Mikil átök geysuðu innan þings um haustið og veturinn, ýmsir sáu vankanta á róttækum stjórnarskrárbreytngum. Stjórnarandstaðan gerði kröfu um að breytingar yrðu ekki gerðar á skránni nema í sátt og styr stóð um ákveðin atriði, eins og kafla um auðlindir.

Svo fór að reynt var að afla fylgis við ákveðin grundvallaratriði úr hinni nýju stjórnarskrá með því að setja sex spurningar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þann 20. október 2012 var kosið og þá mættu tæplega 116 þúsund af tæplega 237 þúsund manns á kjörstað.

Atkvæði féllu þannig:

1. Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?


Já,
ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá

Atkvæði hlutföll
73.408 64,2 %

Nei, ég vil ekki að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá

Atkvæði hlutföll
36.252 31,7 %

2. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?

Atkvæði Hlutföll
84.633 74,0 %
Nei
17.441 15,2 %

3. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi

Atkvæði Hlutföll
58.354 51,1 %
Nei
43.861 38,3 %

4. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er ?

Atkvæði Hlutföll
78.356 68,5 %
Nei
21.623 18,9 %

5. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt ?

Atkvæði Hlutföll
66.554 58,2 %
Nei
33.536 29,3 %

6. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu ?

Atkvæði Hlutföll
72.523 63,4 %
Nei
26.402 23,1 %

Fór nú málið aftur inn í þingið en sat þar að mestu fast enda stóðu deilur í þinginu um flesta hluti og einkanlega um sjávarútvegsmál. Svo fór að málinu var ekki lokið þegar kom að kosningum vorið 2013. Í þeim kosningum misstu stjórnarflokkarnir meirihluta og ríkisstjórn undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar komst til valda. Sú ríkisstjórn ætlaði sér að halda áfram að skoða stjórnarskrármálin og láta starfa nefnd sem skoðaði úrbætur – en því starfi er ekki lokið. Vandséð er að niðurstaða þess verði jafn róttæk og hin nýja stjórnarskrá sem enn liggur í drögum.