Dæmi um verkefnasíðu

Harpa Henrysdóttir

Tíðir sagna
5. janúar 2015

Bók: Málkrókar
Höfundur: Mörður Árnason
Útgáfuár: 1991
Blaðsíða: 95

Hér kemur textinn eins og hann er skrifaður í bókinni, innan gæsalappa:

''Hvers kyns er manneskja? Manneskja er auðvitað af málfræðilegu kvenkyni, á sama hátt og maður er málfræðilega karlkyns, og barn er hvorugkyns. En hvað merkir þá þetta orð? Er allt mannfólkið manneskjur eða bara kvenmenn og ekki menn í merkingunni karlmenn? Skipting nafnorða í íslensku í þrjú svokölluð kyn á sér fornar rætur afturfyrir sérstaka norræna tungu, sameiginlega því norðurfólki sem seinna braust með áraglammi og vígahljóðum inní mannskynssöguna á öld víkinga og meira að segja aftur fyrir sérstaka germanska tungu ættbálka í víðlendu skógarþykkni handan við strendur Eystrasalts og Norðursjávar.''

Fyrir neðan textann set ég útskýringu á hvernig ég ætla að breyta út af verkefnalýsingunni:

Upprunalegi textinn byrjar í nútíð en þegar Mörður fer að segja frá norðurfólkinu sem braust með áraglammi og vígahljóðum inní mannkynssöguna er textinn í þátíð. Ég ákvað að breyta textanum þannig að sá hluti hans sem var í nútíð varð í þátíð og sá hluti sem var í þátíð varð í nútíð.

Hér kemur textinn aftur þar sem ég er búin að setja hann í aðra tíð eins og segir að eigi að gera í verkefnalýsingunni, eða eins og ég hef ákveðið að gera og útskýrt fyrir ofan:

''Hvers kyns var manneskja? Manneskja var auðvitað af málfræðilegu kvenkyni, á sama hátt og maður var málfræðilega karlkyns, og barn var hvorugkyns. En hvað merkti þá þetta orð? Var allt mannfólkið manneskjur eða bara kvenmenn og ekki menn í merkingunni karlmenn? Skipting nafnorða í íslensku í þrjú svokölluð kyn átti sér fornar rætur afturfyrir sérstaka norræna tungu, sameiginlega því norðurfólki sem seinna brýst með áraglammi og víaghljóðum inní mannskynssöguna á öld víkinga og meira að segja aftur fyrir sérstaka germanska tungu ættbálka í víðlendu skógarþykkni handan við strendur Eystrasalts og Norðursjávar.''

Hér koma pælingar mínar um verkefnið sjálft:

Mér finnst merking textans breytast þannig að það er eins og hann sé lýsing á einhverju fornu tungumáli sem nú er útdautt. Orðin sem breytast eru öll sagnorð. Ég hugsaði mikið um ''og meira að segja'' vegna þess að  ''að segja'' er sagnorð en mér fannst að í þessum texta væri það orðasamband sem innihéldi sögn og það væri í raun ekki hægt að breyta um tíð á því.

Hér koma pælingar mínar um textann sem ég var að vinna með, stundum er þetta ekki neitt, en einhverra hluta vegna varð þessi bútur úr texta bókarinnar fyrir valinu, kannski var hann áhugaverður, þá segir maður frá því sem manni fannst áhugavert, kannski er þetta akkúrat þar sem ég er stödd í bókinni, þá segi ég frá því, kannski var hann bara einmitt passlega langur - og þá segir maður frá því:

Ég valdi þennan textabút vegna þess að hann er 91 orð, það fannst mér passlegt. Mér fannst líka áhugavert hve fá sagnorð voru í texta af þessari lengd og velti fyrir mér af hvaða orðflokkum hin orðin séu, er þessi texti á flóku máli? er notað mikið skraut?. Hér gætu líka vaknað ýmsar pælingar um jafnrétti og kynjasjónarmið. Hvers vegna er í lagi að nota karlkynsorð um konur en ekki kvenkynsorð um karla? Er það svo? Höfundur virðist taka því sem gefnu að svoleiðis sé það. Bókin er skrifuð árið 1991 - ætli Mörður hefði orðað þessar pælingar sínar eins árið 2015? Getur karl verið ljósmóðir? Getur kona verið ráðherra?