Fréttir við frá Grunnskólanum á Ísafirði við skólalok, vorið 2015

Síðustu dagar skólaársins voru viðburðaríkir að venju.  Við reyndum að láta kuldann ekki á okkur fá og halda þeim dagskrárliðum sem hægt var.  Nemendur fóru í hefðbundnar ferðir eins og sveitaferð, heimsókn í Náttúrugripasafnið í Bolungarvík, skoðunarferð til Orkubús Vestfjarða, á Melrakkasetrið og í Raggagarð og í Íslandssögu á Suðureyri svo eitthvað sé nefnt.  10.bekkur fór í sitt hefðbundna skólaferðalag, að þessu sinni var farið í Skagafjörðinn þar sem margt var gert til skemmtunar.  Ferð á Hrafnseyri varð að fresta til haustins vegna færðar.  Þessar ferðir eru mikilvægar, bæði sem námsferðir í eiginlegum skilningi, og svo sem þáttur í að efla sjálfstraust og félagsþroska nemenda.  Það eru þættir sem hlúa verður vel að í uppvexti barna en verkfærin til þess eru ekki eins augljós eins og til dæmis verkfærin sem við höfum til stærðfræðikennslu.  

Nemendur 10.bekkjar kunna greinilega að leika sér. Mynd: Hrafn Snorrason

Vorverkadagurinn

Hefð er komin á það að allir nemendur skólans taki fullan þátt í grænu vikunni sem  Ísafjarðarbær stendur fyrir.  Nemendur og starfsmenn skólans vinna margvísleg verkefni út um allan bæ, hver árgangur fær sitt verkefni og þar má nefna ruslahreinsun, gróðursetningu og málningarvinnu.    Hér eru nokkrar myndir af vinnandi fólki.

Óskilamunir

Í skólanum er mikið af óskilamunum eftir veturinn.  Þeim hefur nú verið raðað á borð í anddyrið á móti Sundhöllinni.  Hér eru úlpur, peysur, íþrótta- og sundföt, og húfur og vettlingar í stöflum.  Við hvetjum ykkur til að koma og skoða hvort eitthvað af þessu tilheyrir ykkur.  Þann 20.júní verður farið með það sem eftir verður til Rauða krossins.  Hér eru nokkrar myndir af því sem hefur orðið eftir hér í skólanum eða í Sundhöllinni.

Skólaslit

Skólanum var slitið við hátíðlega athöfn í kirkjunni þann 5.maí.  Þetta voru 140. skólaslitin frá því að formleg kennsla barna hófst á Ísafirði.  Að venju flutti Sveinfríður Olga Veturliðadóttir skólastjóri ávarp þar sem hún fór yfir helstu atriðin í skólastarfinu í vetur og Ólöf Dagmar Jónsdóttir flutti erindi fyrir hönd nemenda.  Að þessu sinni voru útskriftarnemendur 41.  

Glæsilegur hópur útskriftarnema. Mynd: Hrafn Snorrason

Tveir útskriftarnemendur fluttu tónlistaratriði.

Í mörg ár hefur verið boðið upp á smáskipanám fyrir nemendur 10.bekkjar. Smáskipanámið er bóklegur hluti skipstjórnarréttinda á bátum undir 12 metrum að lengd. Síðastliðin ár hefur námið verið í samstarfi við Fræðslumiðstöð Vestfjarða.  Að þessu sinni luku 10 nemendur smáskipaprófi.

Nemendur úr smáskipanáminu ásamt kennaranum sínum. Mynd:Hrafn Snorrason.

Viðurkenningar voru veittar fyrir góða ástundun og árangur í mörgum greinum.  Ekki náðust góðar myndir af alveg öllum sem fengu viðurkenningar á skólaslitunum en þær sem eru í lagi koma hér.  

Auk þeirra fengu Hekla Hallgrímsdóttir viðurkenningu fyrir góða ástundun og árangur í íslensku, Gunnar Þór Valdimarsson fyrir góða ástundun og árangur í heimilisfræði, Arndís Þórðardóttir fyrir ástundun og árangur í leiklist, Unnur Eyrún Kristjánsdóttir fyrir góða ástundun og árangur í ensku, Guðný Birna Sigurðardóttir fyrir góða ástundun og árangur í myndmennt.  Því miður náðum við ekki nógu góðum myndum af þessum verðlaunahöfum.

Gleðilegt sumar

Við þökkum ykkur öllum fyrir samstarfið og óskum ykkur gleðilegs sumars.  Skólasetning í haust verður þann 24.ágúst og verður nánar auglýst þegar nær dregur.  Innkaup foreldra fyrir nemendur verða í lágmarki þar sem Ísafjarðarbær leggur nemendum til allar stílabækur og mest af öðrum gögnum sem nemendur þurfa við vinnu sína skólanum. Hafið það gott í sumar og við hlökkum til að takast á við starf næsta vetrar með ykkur.