VIRÐING-METNAÐUR-GLEÐI

FRÉTTABRÉF GRUNNSKÓLA ÖNUNDARFJARÐAR
7. NÓVEMBER 2014

Í næstu viku eru foreldraviðtöl og ættu allir foreldrar að vera búnir að fá miða með tímasetningu á sínu viðtali. Endilega hafið samband sem fyrst við skólann ef tíminn hentar ekki og við munum finna annan tíma hið fyrsta.

Vetrarfrí er 14.nóvember og starfsdagur hjá kennurum 17. nóvember. Vonum við að þið njótið langrar helgi og gerið eitthvað skemmtilegt saman.

STILLUM SAMAN STRENGI

Allir leik- og grunnskólar í Ísafjarðarbæ ætla að vinna að bættum námsárangri barna í sameiginlegu átaki sem hefur fengið nafnið " Stillum saman strengi". Það sem felst aðallega í verkefninu er að samræma allar skimanir í og efla íslensku- og stærðfræðikennslu og að foreldrar verði virkir þátttkendur í námi barna sinna. Margrét Halldórsdóttir og Sigurlína Jónasdóttir voru með kynningu fyrir foreldra leik- og grunnskólabarna á Flateyri mánudaginn 3. nóvember og voru foreldrar mjög jákvæðir gagnvart vinnunni sem framundan er.

Baráttudagur gegn einelti er á laugardaginn 8. nóvember. Í tilefni þess bjuggu nemendur í 1.-5. bekk til veggspjald með orðunum: Hugsaðu áður en þú talar- það er erfitt að laga krumpað hjarta

Ýtið á hnappinn hér fyrir ofan og þá sjáið þið frétt frá tékkneskum kennara sem tók þátt í Mysteryskype með okkur. Þetta er mjög skemmtileg leið til að kenna börnum landafræði, tungumál, tjáningu og samvinnu. En þetta fer þannig fram að skólarnir "hittast" á Skype, spyrja spurninga, t.d. búið þið í Evrópu?, hinir mega einungis svara með jái eða neii o.s.frv. þangað til að báðir skólarnir eru búnir að finna út hvar hinir búa.

Mikið er búið að vera um dýrðir í búningadögum, fyrst vorum við með búningadag 31. október og þá komu börnin klædd í alls kyns búningum. En svo var Guðmunda með búningadag þann 5.nóvember í tengslum við Astrid Lindgren þema sem hún er búin að vera með í lestri.