Ásynjur

Hverjar eru ásynjurnar?

Frigg er æðst. Hún á þann bæ er Fensalir heita og er hann allveglegur.

Önnur er Sága. Hún býr á Sökkvabekk og er það mikill staður.

Þriðja er Eir. Hún er læknir bestur.

Fjórða er Gefjun. Hún er mær og henni þjóna þær er meyjar andast.

Fimmta er Fulla. Hún er enn mær og fer laushár og gullband um höfuð. Hún ber eski Friggjar og gætir skóklæða hennar og veit launráð með henni.

Freyja er tignust með Frigg. Hún giftist þeim manni er Óður heitir. Dóttir þeirra heitir Hnoss. Hún er svo fögur að af hennar nafni eru hnossir kallaðar það er fagurt er og gersemlegt. Óður fór í braut langar leiðir, en Freyja grætur eftir, en tár hennar er gull rautt. Freyja á mörg nöfn, en sú er sök til þess að hún gaf sér ýmis heiti er hún fór með ókunnum þjóðum að leita Óðs. Hún heitir Mardöll og Hörn, Gefn, Sýr. Freyja átti brísingamen. Hún er kölluð Vanadís.

Sjöunda Sjöfn. Hún gætir mjög til að snúa hugum manna til ásta, kvenna og karla. Af hennar nafni er elskhuginn kallaður sjafni.

Áttunda Lofn. Hún er svo mild og góð til áheita að hún fær leyfi af Alföður eða Frigg til manna samgangs, kvenna og karla, þótt áður sé bannað eða þvertekið. Fyrir því er af hennar nafni lof kallað, og svo það er lofað er mjög af mönnum.

Níunda Vár. Hún hlýðir á eiða manna og einkamál er veita sín á milli konur og karlar. Því heita þau mál várar. Hún hefnir og þeim er brigða.

Tíunda Vör. Hún er vitur og spurul svo að engan hlut má hana leyna. Það er orðtak að kona verði vör þess er hún verður vís.

Ellefta syn. Hún gætir dura í höllinni og lýkur fyrir þeim er eigi skulu inn ganga og hún er sett til varnar á þingum fyrir þau mál er hún vill ósanna. Því er það orðtak að syn sé fyrir sett þá er maður neitar.

Tólfta Hlín. Hún er sett til gæslu yfir þeim mönnum er Frigg vill forða við háska nokkrum. Þaðan af er það orðtak að sá er forðast hleinir.

Þrettánda Snotra. Hún er vitur og látprúð. Af hennar heiti er kallað snotur kona eða karlmaður sá er hóflátur er.

Fjórtánda Gná. Hana sendir Frigg í ýmsa heima að erindum sínum. Hún á þann hest, er rennur loft og lög, er heitir Hófvarpnir. Það var eitt sinn er hún reið að vanir nokkrir sá reið hennar í loftinu.

Comment Stream