Um okkur

Við heitum Unnar Heimir Skúlason og Aníta Magnúsdóttir. Saman eigum við eina gullfallega unga dömu sem ber nafnið Eyja Dís. Við stundum nám við Fjölbrautaskóla Snæfellinga og vonumst með því að loks ljúka stúdentsprófi. Í þessu verkefni okkar munum við skýra frá því sem við lærðum um Ásatrú við undirbúning þessa verkefnis og sýna listir okkar í verkefna og heimasíðu gerð.

Njótið vel :)

Glærusýning

Glærusýning verkefnissins má finni í þessum hnappi hér ↓

Verkefni um Ásatrú

Unnar og Aníta
Fjölbrautaskóli Snæfellinga
Fél 103

Hvað er ásatrú?

Ásatrú er annarsvegar nafn trúarbragða sem norrænir menn aðhylltust til forna. Hún hefur að einhverju leyti gengið aftur í nútímanum en þá gjarnan sem einhverskonar heimspeki eða lífssýn.

Ásatrú til forna snerist ekki aðeins um trú á tiltekna guði eða goð heldur trúðu menn á Norðurlöndum og í Germaníu að heimurinn væri fullur af yfirnáttúrulegum verum, svosem álfum, dvergum, dísum og fleiri.

Helstu heimildir um ásatrú til forna eru Völuspá og Gylfaginning.

Heimsmynd ásatrúarmanna

Í Völuspá er sköpun heimsins lýst. Í upphafi var ekkert nema auðn og tóm og svokallað Ginnungagap. Þar mættust hiti og kuldi og þar var Ýmir sem eignaðist afkvæmi með sjálfum sér og drakk mjólk úr kú sem sleikti stein sem varð að persónu. Barnabörn steinsins drápu Ými og gerðu úr honum himin og jörð. Hinir sömu fundu trédrumba í fjöru og gerðu úr þeim fyrstu mennina, Ask og Emblu.

Gott og illt tekst á í heiminum og mennirnir hafa eiginleika sína frá ásunum sem blésu í þá lífi. Ekkert getur þó komið í veg fyrir það að heimurinn farist í ógurlegum hamförum sem kallast ragnarök. (Gylfaginning)

Örlagatrú

Það er ekki bara heimurinn sem getur ekki flúið örlög sín. Örlög hvers einasta manns eru ráðin samkvæmt ásatrúnni því þrjár nornir, Urður, Verðandi og Skuld, spinna þræði sem tákna líf mannanna.(Eva Hrund Hlynsdóttir).

Menn og æsir verða að mæta örlögum sínum með hugrekki.

Í nútíma ásatrú er megináhersla á að bera virðingu fyrir náttúrunni og heiminum og þekkja stöðu sína í honum.

Helstu goð

Æðstur guðanna er Óðinn, faðir annarra goða. Tólf æsir og ásynjur eru guðleg. Þór er næstur Óðni. Hann ekur um í vagni sem dreginn er af tveimur höfrum. Hann á þrjá kostagripi, hamar (sem hann kastar í óvini), belti (sem gerir hann sterkan) og hanska (svo hann geti notað hamarinn). Baldur er bestur goðanna og vitrastur. Hann er líka fallegastur. Meðal annarra ása má nefna Njörð, Tý, Frey og Braga. Hver ás hefur sitt hlutverk og sín eiknkenni. Í Ásgarði býr einnig Loki, sem er fallegur en illur og undirförull. Hann er táknmynd hins illa og vegna hans verða mikil vandræði. (Gylfaginning).

Loki - Hel

Loki er faðir þriggja hræðilegra skrísmla sem eru verstu óvinir ása. Það eru Miðgaðsormur, Fenrisúlfur og Hel. Fenrisúlfur étur sólina í ragnarökum en Hel kom mest við sögu venjulegra manna. Í ásatrú töldu menn að þeir sem dæju af náttúrulegum orsökum færu til Heljar (þar sem hún m.a. plokkaði af þeim neglurnar og smíðai úr þeim skip). Þeir sem dóu í bardaga komust til ásanna í Valhöll og gátu þar drukkið og slegist allan liðlangan daginn. (Sverrir Páll Erlendsson)

Nútíma ásatrú

Eins og áður sagði er umdeilanlegt að hve miklu leyti þeir sem segjast ásatrúar í dag eru í raun trúaðir í eiginlegum skilningi. Af tuttugu þúsund ásatrúarmönnum í heiminum eru um 1400 íslenskir (Ásatrú í hnotskurn). Fæstir þeirra trúa því í raun og veru að örlaganornir hafi líf þeirra á valdi sínu eða að Þór þjóti um himininn veifandi hamri. Einhverjir eru hrifnir af ásatrú vegna þess að hún er gamall. íslenskur menningararfur. Aðrir hrífast af siðaboðskap ásatrúarmanna. Ekki eru allir hrifnir af því þegar nútímamenn endurvekja horfin trúarbrögð eins og þessi orð Sigurðar Nordal bera með sér:

„Það er grátbroslegt fyrirbrigði nútíðaróra, sem sögur hafa farið af á seinni árum, að menn leiti sér sanngermanskrar sáluhjálpar með því að blóta Þór og Óðin, – broslegt af því, að það verður ekki annað en skopstæling, – grátlegt vegna þess. að menn eru leiddir á slíka glapstigu af fornfræði, sem hefur gefið miklu meiri gaum að goðaævintýrum og fátæklegum fornminjum en lífrænasta kjarna heiðinnar heimsskoðunar og mannræktar.“

Hann bætir við:

„Meira af verðmætustu arfleifð [heiðins dóms] lifir enn í fari kristins drengskaparmanns en forneskjuórum þeirra, sem gera sér upp ásatrú á vorum dögum.“ (Hjartans hobbí)

Erlendis hafa ásatrúarmenn glímt við mikinn áhuga rasista á trúarbrögðunum. Eru það gjarnan menn sem trúa á yfirburði hins hvíta kynstofns sem telja að ásatrúin sé á einhvern hátt trú sem hæfir hvítum, sterkum, norrænum mönnum. Hljómsveitin Skálmöld, sem spilar tónlist sem innblásin er af heiðnum sið hefur oftar en einu sinni þurft að andmæla rasískum aðdáendum á Facebook.

Talsmenn ásatrúar á Íslandi í dag mótmæla því að trúarbrögðin séu fölsk, rasísk eða kjánaleg. Þeir lýsa heimspeki sinni þannig:

„Heiðinn siður byggir á umburðarlyndi, heiðarleika, drengskap og virðingu fyrir náttúrunni og öllu lífi. Ásatrúin leggur áherslu á að lifa í sátt við náttúruna. Allt sem við gerum móður Jörð gerum við sjálfum okkur og börnum okkar. Eitt megin inntak siðarins er að hver maður er ábyrgur fyrir sjálfum sér og sínum gjörðum. Þar sem mörg okkar búa í borgarasamfélagi mótar það hugsanir og athafnir. Iðka því ásatrúarmenn trú sína á hvern þann hátt sem hverjum og einum hentar, svo framalega sem iðkunin brýtur ekki í bága við landslög.“ (Hvað er ásatrú?)

Er ásatrú óþörf?

Ásatrú er kannski skýrasta dæmið sem við þekkjum um trúarbrögð sem eiga undir högg að sækja. Flestir þættir ásatrúar hafa fyrir löngu afhelgast. Fólk er ekki í biðröðum eftir því að vera drepið í bardaga til að komast á eilíft fyllerí í Valhöll og fáir telja að það sé sérlega slæmt að deyja náttúrurlegum dauðdaga í hárri elli.

Max Weber taldi að trúarbrögð þyrftu að láta undan m.a. vegna þess að annað kemur í staðinn. Til dæmis menntun og vísindi. Reynslan af heimi ásatrúar smellpassar við þetta enda eru skýringar ásatrúarinnar á náttúrunni og heiminum löngu orðnar úreltar.

En hvað er þá eftir?

Dalaí Lama bendir á að það sé ekki nauðsynlegt að tilheyra trúfélagi til að ástunda þá eiginleika sem skipti mestu í mannlegum samskiptum, s.s. ást, umhyggju, umburðarlyndi o.fl., en þó telur hann að slíkt sé auðveldara innan trúfélaga en utan þeirra. Nútíma ásatrúarmenn þjappa sér saman utan um ákveðin gildi og ákveðið siðferði. Maður getur því haldið að ásatrú sé einhvers virði. Hún hjálpi fólki. En þá þarf líka að hafa í huga að það getur verið tilviljanakennt hvort menn noti ásatrú til að þjappa sér um virðingu fyrir náttúrunni og öðru fólki – eða til að blása lífi í öfgaskoðanir og rasisma. (Björn Bergsson: 168-170)

Heimildir og lesefni

Ásatrú í hnotskurn (n.d.) Sótt 17. apríl 2015, á http://attavitinn.is/samfelagid/trumal/hvad-er-asa...

Björn Bergsson o.fl. (2004). Kemur félagsfræðin mér við?: Kynning á félagsfræði, skyldum greinum og sýn hennar á samfélagið (3. pr. ný útg. ed.) (B. Björn, Ed.). Reykjavík: Iðnú.

Eva Hrund Hlynsdóttir, Katrín Arndís Blomsterberg Magneudóttir og Helgi Kristjánsson. „Hvað hétu örlaganornirnar í norrænni goðafræði?“. Vísindavefurinn11.7.2005. http://visindavefur.is/?id=5124. (Skoðað 18.4.2015).

Gylfaginning (stytt) (Sverrir Páll Erlendsson). Sótt 18.apríl, 2015 á http://gogn.ma.is/kenn/svp/kennsluefni/gylfag_stut...

Hvað er Ásatrú? (n.d.). Sótt 16. apríl, 2015, á http://asatru.is/hvad-er-asatru

Hjartans hobbí (Ragnar Þór Pétursson). Sótt 15. apríl 2015, á http://maurildi.blogspot.com/2012/06/hjartans-hobb...

Ingibjörg Ásta Tómasdóttir. „Hver var heimsmynd ásatrúarmanna?“.Vísindavefurinn 3.6.2009. http://visindavefur.is/?id=12465. (Skoðað 18.4.2015).

Comment Stream