Hvað veldur eldgosum

Frumorsök allra eldgosa er að undir jarðskorpunni er heitt, bráðið berg. Að hluta til er það heitt vegna þess að innsti kjarni jarðar er glóandi heitur (álíka og yfirborð sólarinnar) og undir svo miklum þrýstingi að þar eiga sér stað kjarnahvörf sem framleiða stöðugt mikinn hita. Að hluta til stafar hitinn líka af því að yfirborð Jarðar er ekki ein samfelld skel heldur er hún brotin í nokkra stóra fleka. Þegar þessir flekar nuddast saman getur myndast talsverður hiti.

Þar sem tveir flekar nuddast saman á það sér stundum stað að gerð kvikunnar breytist m.a. vegna vatns sem blandast við kvikuna. Við það getur kvikan lést miðað við kvikuna umhverfis (ekki ósvipað loftbólu sem verður til) og þá þrýstist hún upp og þrýstir á neðra borð jarðskorpunnar. Vegna þeirra átaka sem fylgja nuddi flekabrúnanna er skorpan oftar en ekki sprungin og full af rifum. Hin létta, bráðna kvika getur þrýst sér upp um þær sprungur og upp á yfirborðið. Hún þarf þó stundum að brjóta sér leið upp um yfirborðið áður en eldgos verður. Stór hluti af eldvirkni á Jörðinni skýrist af þessu.

Sumstaðar á Jörðinni eru önnur öfl að verki sem ekki hafa verið fyllilega útskýrð enn. Þá er um að ræða staði sem kallaðir eru „heitir reitir“. Þar rís bráðin kvika upp og þrýstir sér inn í sprungur og holrúm í jarðskorpunni, oft töluvert langt frá flekaskilum (en stundum nærri þeim reyndar líka). Slíka staði má oft þekkja á því að röð eldfjalla eða eyja myndast á yfirborði Jarðar. Það fer þannig fram að sá staður sem kvikan leitar upp um helst á sínum stað en jarðskorpan færist til og eldgos verða á nýjum stað þegar kulnaðar eldstöðvar færast fjær uppruna kvikunnar.

Ísland er talið sitja á slíkum heitum reit. Landið reis úr sjó vegna stöðugrar eldvirkni á löngum tíma. Eldvirknin er í fullum gangi enn og víða má sjá raðir eldstöðva, bæði sem fjöll og eyjur undan landi.

Eldgosið í Holuhrauni er ekki að fullu búið að skilja enn. Jarðvísindamenn vissu þó fyrir nokkru síðan að eitthvað stæði til. Jarðskjálftamælar mældu töluverðan titring undir Bárðarbungu. Slíkur titringur er oft merki um að heit kvika sé að troða sér um glufur og sprungur í berginu fyrir neðan. Skyndilega bárust mælingar sem sýndu að fjöldi skjálfta stefndi burt frá Bárðarbungu í norðaustur í átt til Öskju. Drógu vísindamenn þá ályktun að líklega væri kvika að troða sér eftir láréttri sprungu eða glufu í stað þess að rísa upp. Lengi vel mældust aðeins skjálftar á töluverðu dýpi (meira en 5 km) og því voru menn alls ekki vissir um hvort kvikan myndi ná yfirborðinu. Líkur á því aukast mjög eftir því sem landið lækkar. Á endanum fann kvikan sér þó leið upp í gegnum bergið og það gos hófst sem nú stendur enn.

Tilraunir og hugtök

Tilraun sem sýnir hvernig heit kvika verður hreyfanlegri (t.d. matarlitur + misheitt vatn eða bráðið smjörlíki).

Lögmál Pascals (kvika sem þrengir sér leið gegnum sprungur virkar eins og vökvalpressa) Ekki satt?

Hringrás bergs