Fréttir frá Grunnskólanum á Ísafirði við skólalok vorið 2016

Maður lærir líka margt í frímínútunum

Vordagar

Dagskrá skólans í maí ber þess merki að mikið er um útivinnu og vettvangsferðir hjá nemendum og er það í samræmi við markmið aðalnámskrár grunnskóla.  Hefð er fyrir því að hver árgangur vinni sérstök verkefni og vinabekkir vinni saman.   

Vorverkadagur

Á vorverkadaginn voru verkefni skipulögð í samstarfi við umhverfissvið Ísafjarðarbæjar. Þá unnu 1.og 8. bekkur saman og settu niður kartöflur og fóru í leiki. Næsta haust fá svo nemendur uppskeruna með sér heim ef vel tekst til. Nemendur 8.bekkjar fóru svo og aðstoðuðu hjá Gróanda og munaði miklu um að fá margar vinnufúsar hendur í það verkefni. 2. bekkur hreinsaði til á Sjúkrahústúninu og við rólurnar í Fjarðarstræti. Nemendur 3.bekkjar sáðu í alla auða bletti í miðbænum. 4.bekkur rakaði stíga og hreinsaði til í Jónsgarði. 5.bekkur rakaði meðfram Skutulsfjarðarbrautinni og sáði grasfræjum í brekkuna þar fyrir ofan. 6.bekkur gróðursetti tré í reit Skógræktarfélagsins. Nemendur 7.bekkjar unnu í kirkjugarðinum við Eyrargötu. 9.bekkur fúavarði girðingar og leiktæki á skólalóðinni og gróðursetti í blómaker. 10.bekkur var í starfskynningum þennan dag. Við teljum mikilvægt að nemendur taki þátt í að fegra umhverfi sitt og sinna samfélagslegum verkefnum. Það ýtir undir ábyrgðartilfinningu þeirra gagnvart samfélaginu.

Nemendur 8.bekkjar í garðvinnu
Hér er þriðji bekkur að hvíla sig eftir erfiðið

Vettvangsferðir

Í maí er einnig farið í margar vettvangsferðir með nemendur. Sem dæmi má nefna að  3.bekkur heimsækir slökkvistöðina, 4.bekkur fer hjólandi inn í Tunguskóg, 5. bekkur fer á náttúrugripasafnið, 7.bekkur fer í golf, 8.bekkur á Hrafnseyri og að þessu sinni fóru 2. og 9.bekkur saman í Raggagarð.  10.bekkur fór í ferð á slóðir Gísla Súrssonar í Haukadal. Ýmsar aðrar styttri ferðir eru farnar svo sem fjöruferðir og heimsóknir á söfn.

Það er gott að hafa stóra krakka með sem hjálpa manni að snúa.
Nemendur 1. og 8.bekkjar léku sér saman milli þess sem unnið var að garðverkum.
Áhugasamir nemendur á safninu á Hrafnseyri

Gaman að lesa - líka á sumrin

Nú er þetta skólaár á enda og flest börn hafa tekið góðum framförum í lestri í vetur. Við kennararnir erum satt að segja með ofurlítinn kvíðahnút í maganum þegar við horfum á eftir nemendum okkar út í sumarið vegna þess að við vitum að sumir þeirra munu ekki líta í bók í allt sumar. Reynslan hefur nefnilega sýnt okkur að þau börn sem ekkert lesa yfir sumartímann þurfi 2-3 mánuði að hausti til að vinna upp þá lestrarleikni sem hefur tapast. Það er ótrúlega svekkjandi að horfa upp á afturför á hverju sumri, ár eftir ár og við vitum að áhrif þess að lesa aldrei neitt á sumrin verða langvarandi.

Við hvetjum krakkana því til að nota tímann vel í sumar og njóta þess að lesa góðar bækur hvar sem þau verða, í sumarbústað, á sólarströnd, í tjaldi eða bara heima, t.d. eftir spennandi fótboltaleik á EM. Foreldrar eru í lykilhlutverki hér sem annars staðar og það er þeirra hlutverk að minna börnin sín á hve gaman og nauðsynlegt er að lesa. Það er hægt að gera ýmislegt sprell í kringum lesturinn, það er t.d. skemmtileg sumarlestrarkeppni í gangi á bæjarbókasafninu, einnig er hægt að nota hvetjandi öpp eins og t.d. Study Cake og hér má finna góðar hugmyndir um sumarlestur. Á næsta hausti verður bókmenntaspurningakeppni í skólanum fyrir 4.-7. bekk og við hvetjum alla á þeim aldri til að búa sig vel undir spurningakeppnina í sumar. (Nánari upplýsingar á bæjarbókasafninu).

Unglingarnir okkar þurfa líka að muna eftir lestrinum. Símar og spjaldtölvur toga til sín athygli þeirra en við vitum líka að þau njóta þess ekkert síður en aðrir að lesa góðar bækur, það þarf kannski bara að minna þau á það.

Gleðilegt lestrarsumar

Skólaslit

Nemendur 1.-7.bekkjar fengu sinn vitnisburð í morgun en í kvöld klukkan 20:00 verður skólanum slitið formlega.  Þá fer einnig fram útskrift nemenda úr 10.bekk.  Útskriftin fer að vanda fram í kirkjunni, þangað mæta nemendur á unglingastigi og starfsfólk skólans.  Á dagskrá eru, auk útskriftarinnar, verðlaunaafhendingar og tónlistaratriði.  Við fögnum því að sífellt fleiri foreldrar mæta með börnum sínum á skólaslitin og taka þannig þátt í þessari athöfn með þeim.  

Útskriftarárgangurinn á leið í rafting.

Að lokum

Um leið og við þökkum ykkur fyrir gott samstarf á liðnu skólaári minnum við á óskilamunina sem enn er nokkuð af í skólanum, skólinn er opinn á dagvinnutíma fram að mánaðarmótum og hvetjum við þá sem sakna fata að koma og athuga hvort þau finnast hér.