Módermismi 1950

Hugtakið módernismi hefur ekki beint eina merkingu, það er notað sem samheiti á mörgum skáldskaparstefnum svo sem symbólisma, expressionisma og súrrealisma.
Módernisminn var ákveðið viðbragð við iðnvæðingu, örri borgarmyndun og upplausn bændamenningarinnar. Tímabil módernismans hófst um árið 1950 þegar atómskáldin komu til sögunnar. Skáldin voru komin með leið á formfestu ljóðanna, þeim fannst kominn tími á að brjóta upp ljóðformið og nútímaljóðin tóku við. Ekki voru allir á sömu skoðun og atómskáldin og því voru þau mikið hædd og gert gys að. Hefðbundin ljóðagerð hélt sínum sessi ásamt raunsæisstefnunni en nýjar dyr opnuðust með módernismanum og hann blómstraði. Módernisminn átti rætur sínar að rekja til iðnaðarsamfélaga Evrópu, einsemd, einangrun og umkomuleysi mannsins í óvinveittri veröld eru þess vegna algeng viðfangsefni.

Módernismi er í raun uppreisn gegn hinu hefðbundna raunsæi. Módernistar kljást við að berja niður myndina sem raunsæið málaði upp fyrir alla að sjá og trúa á. Þeir töldu að sá veruleiki sem birtist í raunsæisbókmenntum gæfi fólki þá fölsku mynd að veruleikinn væri eins fyrir alla og tiltölulega einfaldur. Staðreyndin væri hinsvegar sú að heimurinn sé flókinn og tilveran óútreiknanleg, en allir skynja hana á sinn hátt og því birtist hún í annarri mynd fyrir hvern og einn. Tungumál módernískra verka er því oft flókið og torrætt á köflum, því verður upplifun einstaklingsins einstök. Tvíræðni máls og margræðni eru stór partur af módernismanum og málbeitingin miðar að því að koma á óvart með óvæntum orðatengslum og setningasamböndum, ljóðin oft í fáránlegu samhengi. Nútímaljóð lúta ekki bragreglum, þau eru knöpp og hverfast um eina ljóðmynd og samhengi þeirra er óljóst. Orð þeirra vísa út fyrir hefðbundið merkingasvið sitt, setningaskipan er óvenjuleg og engin regla á greinarmerkjum eða stórum stöfum. Ljóðmyndin er helsta formeinkenni nútímaljóða og oft beita skáldin vísunum í annan skáldskap ásamt táknum. Lesendum er gert að túlka ljóðin og reyna að skilja á meðan þau lifa sig inn í þau.

Ljóðabókin Þorpið eftir Jón úr Vör kom út árið 1946. Sú nýjung sem kom fram með henni var formbreytingin, en öll bókin var ort undir einföldu, órímuðu ljóðformi án ljóðstafa. Óbundið form var talið svik við íslenska þjóðrækni, en margir höfðu fengið nóg af hinu hefðbundna íslenska ljóðformi sem gerði það að verkum að ljóðin liggur við ortu sig sjálf með þar til gerðum höfuðstöfum, stuðlum og rími. Bókin er safn óbundinna ljóða frá bernskustöðvum skáldsins vestur við Patreksfjörð. Þar lýsir Jón uppvaxtarárum sínum sem voru á tímum kreppu og fátæktar. Ljóðmælandinn er því oft eldri maður sem rifjar upp æsku sína í sjávarþorpi þar sem hann ólst upp með fóstra sínum og ávarpar sitt yngra sjálf beint. Efnið þótti í rauninni ekki skáldlegt á þessum tíma en yfir ljóðunum ríkir virðing fyrir striti fólksins, hógværð og fegurð innan sárafátæktar. Jón valdi ljóðunum fallegan ramma, látlaus, rökrænn og einfaldur, ljúfsár en fullur af innileika og hlýju. Þorpið bar því í sjálfu sér ekki einkenni módernismans fyrir utan formleysið en var mikilvægur partur í þróun ljóðagerðar á Íslandi.

Tíminn og vatnið var ort á fimmta tug aldarinnar. Þrátt fyrir nútímalegt yfirbragð ljóðsins var það ort undir þekktum bragarhætti, hrynjandinn er taktviss og stuðlar víðast. Ljóðið á að höfða til skynjunar og vekja tilfinningar og hugsýn. Mikilvægt er að lesa ljóðið með opnum huga þar sem lítið samhengi er og það virkar eins og markvisst sé verið að rugla fyrir lesanda. Ljóðið er flókið í einfaldleika sínum og er ekki gert til að hægt sé að endursegja efni þess á hversdagslegu máli. Ljóðið vekur upp “vímusæla hrifningu” sem listaverk vekur.

Atómskáld var uppnefni sem notað var um hóp skálda sem ortu óbundin ljóð. Undir þennan hóp féllu Hannes Sigfússon, Einar Bragi, Stefán Hörður Grímsson, Jón Óskar, Sigfús Daðason, Elías Mar og Jónas Svafár. Þeir komu af stað ákveðinni byltingu og önnur skáld skulfu úr reiði og vildu ekki sjá svona illa farið með málið. En þeir héldu hópinn og gáfu út tímaritið Birtingur og kynntu sjónarmið sín til lista og bókmennta og birtu verk sem féllu að þeirra listastefnu. Atburðir erlendis frá létu atómskáldin ekki ósnortin og þau lýstu vanmætti sínum og einsemd gegn heiminum í ljóðum sínum sem var breyting frá hvatningu raunsæisskáldanna um aðgerðir gegn óvinveittum öflum.

Á þessum tíma tók skáldsagan einnig við sér og urðu breytingar á. Frásagnarmáti nýju skáldsögunnar einkenndist af hefðbundnum raunsæismyndum hversdagslífsins sem allt í einu misstu allan takt við raunveruleikann og varð fáránlegt. Sögurnar voru settar fram á fjastæðukenndan hátt og þeim ætlað að umbylta skynjun lesandans og hugsun. Í sumum sögum var sjónarhornið nútíðar eins og í kvikmynd þar sem hefðbundni söguþráðurinn vék fyrir hugsunum sögupersónunnar og engin þörf á reglu eða tímaröð. Í raun urðu sögurnar myndrænni og meira um stíltilþrif, boðandi tónn raunsæis vék fyrir ímyndunaraflinu og sögurnar snérust meir um hugarástand og sálarlíf persónunnar.

Comment Stream