Óðalseigendur...eða næstum því

Eftir margra ára draumóra og vonir erum við Pálmi loks búin að finna okkur land sem við getum kallað okkar eigið. Upphaflega ætluðum við "bara" að fá okkur 20 hektara en þeir stökkbreyttust óvart í rúma 40 hektara bóndanum til mikillar gleði enda búinn að vera lengi með þann draum að vera jarðareigandi.  Á meðan frúin var heldur hógværari og vildi bara smá jarðaskika þar sem hægt væri að rækta grænmeti og setja niður nokkrar hríslur.

Landið varð náttúrulega að fá eitthvert nafn og voru allir í fjölskyldunni spurðir álits og beðnir um hugmyndir. Til að byrja með var vinnuheitið "Útlönd" notað. Enda Helluland land B lóð 1 fasteignanúmer 223299 frekar óþjált. Það var nú ekki ónýtt að skella sér tvisvar, þrisvar á dag til Útlanda. Húsfreyjan er búin að afskrifa millilandaflugvöll á Sauðárkróki, við keyrum þetta bara.

En að öllu gamni slepptu þá er komið nafn á jörðina, Hulduland skal hún heita. Landið er keypt út úr Hellulandi og þar fæst tilvísunin í "landið". Huldunafnið er tilvísun í hina miklu huldufólksbyggð sem er sögð vera í Hegranesinu auk þess sem landið leynir skemmtilega á sér.

16. Apríl 2015

Comment Stream