Fréttir af starfi Grunnskólans á Ísafirði í febúar 2016

Ágætu foreldrar

Nemendur eru í skólanum stóran hluta vökutímans alla virka daga.  Það er því algjörlega nauðsynlegt að foreldrar og starfsfólk skóla geti átt samstarf um skólastarfið og skipst á skoðunum um hvernig best sé að hafa jákvæð áhrif á framtíðina. Þið þekkið börnin best, við vitum hvers menntakerfið krefst og saman getum við því lagt línurnar til heilla fyrir börnin.  Það er flókið verkefni að ala upp barn, sérstaklega ef ekki gengur allt sem skyldi og einhver vandamál koma upp.  Það er rétt að hafa í huga að þrátt fyrir að mikilvægt sé að hlusta á raddir barna er ekki alltaf rétt að fara að óskum þeirra. Börn eru ekki alltaf með langtímamarkmið í huga en þau verðum við, foreldrar og skóli, að hugsa um.  Markmið okkar eru sameiginleg: Að búa nemendur sem best undir þá framtíð sem við teljum að bíði þeirra.  Þið eruð alltaf velkomin í skólann og við viljum heyra hvað ykkur finnst.

Málþing um jafnrétti

Nemendur 6.-10. bekkjar á fræðsluerindi um kynjajafnrétti.

Í nemendakönnun í fyrra vetur kom í ljós að nemendur telja talsvert vanta upp á að fullt kynjajafnrétti sé í umhverfi þeirra, frekar en annars staðar.  Fræðsla um kynjajafnrétti er samþætt mörgum viðfangsefnum grunnskólans.  Til viðbótar við það héldum við málþing um jafnrétti nú í vikunni.  Þingið hófst með erindi Bergljótar Þrastardóttur frá Jafnréttisstofu og svo tóku umræðuhópar nemenda til starfa.  Hóparnir veltu fyrir sér spurningum eins og:  hvað græða strákar/stelpur á jafnrétti og hvað geta unglingar og fullorðnir gert til að efla jafnrétti við ýmsar aðstæður, svo sem í skólanum, íþróttum og á heimilum.  Umræðan var lífleg og samantekt á niðurstöðum mun birtast í næsta fréttabréfi.  

Nemendur í umræðuhópi.

Um heimanám

Heimanám hefur verið mikið til umræðu á undanförnum mánuðum og sýnist sitt hverjum.  Ekki eru til afgerandi rannsóknir sem sýna fram á gagnsemi eða gagnleysi heimanáms og fer það allt eftir aðstæðum hverju heimanám er talið skila.  Flestir eru þó sammála um að heimanám sem nemandinn vinnur, án vandræða, sé gagnlegt rétt eins og öll önnur þjálfun.  Vorið 2013 var sett fram heimanámsstefna í skólanum.  Stefnan var unnin í samstarfi kennara, foreldra og nemenda.  Þar var megináhersla lögð á lestur í öllum námsgreinum og annað heimanám átti að vera samkvæmt samkomulagi við nemendur og foreldra.  Vorið 2015 voru foreldrar spurðir hvort þeir vildu breyta þessu fyrirkomulagi og ekki var afgerandi meirihluti fyrir því, þó svo að ábendingar kæmu fram um að auka þyrfti þjálfun í ákveðnum atriðum.  Kennarar höfðu hins vegar meiri áhuga á að breyta fyrirkomulaginu þar sem margir nemendur, og jafnvel foreldrar, virtust skilja heimanámsstefnuna þannig að ekki ætti að vera neitt annað heimanám en lestur.  Á haustönn 2105 var því farið í endurskoðun stefnunnar sem á að vera þannig að að hún þjóni nemendum og markmiðum skólastarfs sem best.  Kennarar settu fram sínar hugmyndir sem svo voru bornar undir opinn foreldrafund sem haldinn var um miðjan febrúar.  Að lokinni samantekt á umræðum meðal kennara og foreldra voru því gerðar nokkrar breytingar á stefnunni og er hún nú svohljóðandi:

Allir nemendur

Verkefni sem safnast upp vegna veikinda eða leyfa nemenda teljast ekki til heimanáms og rétt er að ítreka að foreldrar bera ábyrgð á því að nemendur vinni upp verkefni sem falla til þegar nemendur eru í leyfi.

Yngsta stig

Lestur í 15 mínútur upphátt á hverjum degi. Annað heimanám einstaklingsmiðað. Sent heim að jafnaði einu sinni í viku með áherslu á íslensku og stærðfræði í samhengi við annað sem verið er að vinna í skólanum. Þess skal gætt að heimanám sé hóflegt og valdi ekki of miklu álagi á heimilin. Foreldrar geta beðist formlega undan öðru heimanámi en lestri.

Miðstig

Lestur í 15 mínútur upphátt á hverjum degi.  Annað heimanám einstaklingsmiðað. Sent heim að jafnaði einu sinni í viku með áherslu á þjálfun í íslensku og stærðfræði, sérstaklega margföldunartöflur og samlagningargildi talna. Þess skal gætt að heimanám sé viðráðanlegt og í samhengi við annað sem verið er að vinna að í skólanum. Foreldrar geta beðist formlega undan öðru heimanámi en lestri.

Unglingastig

Unglingastig – lestur í öllum greinum að minnsta kosti 15 mínútur á dag alls. Mikilvægt er að nemendur undirbúi sig heima fyrir kennslustundir í náttúrufræði og samfélagsgreinum, einnig í erlendum tungumálum og íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Nemendur ljúka þeim verkefnum sem ekki næst að vinna í skólanum. Foreldrar geta beðist formlega undan öðru heimanámi en lestri.

Að lokum um heimanám

Í skólanum hefur talsvert verið rætt um hvort, og þá hvernig, skólinn geti komið til móts við nemendur sem af einhverjum ástæðum geta ekki fengið aðstoð við heimanám hjá foreldrum sínum.  Ýmsar leiðir hafa verið ræddar og fullur vilji er innan skólans til að reyna að jafna þann aðstöðumun sem skapast með aukinni áherslu á heimanám. Spurningar sem við höfum velt upp eru meðal annars:  Ætti slík aðstoð að vera í boði fyrir alla?  Ættu foreldrar að geta sótt um að fá slíka aðstoð?  Ætti skólinn að geta óskað eftir því að ákveðnir nemendur kæmu í slíka aðstoð? Færi betur á því aðstoðin færi fram annars staðar en í skólanum sjálfum?   Allt er þetta til skoðunar og vonandi verður komin einhver mynd á þetta áður en næsta skólaár hefst.

Um afmælisboð

Þegar maður er barn er merkilegt að eiga afmæli og halda afmælisveislu.  Það er líka merkilegt að vera boðið í afmæli annarra.  Við fullorðna fólkið verðum að passa að þessi tímamót verði ekki til þess að einhverjum líði illa.  Það kemur  því miður fyrir á hverju ári að nemanda eða nemendum, er ekki boðið í afmæli eins og flestum bekkjarfélögum þeirra.  Það er líka leiðinlegt að hafa boðið mörgum gestum sem svo mæta ekki í veisluna. Við höfum beðist undan því að afmælisboð fari fram í skólanum því þó svo að öllum í bekk sé boðið valda boðin spennu og eftirvæntingu sem best er að halda fyrir utan skólastarfið.  

Fjölbreytt viðfangsefni

Námsgreinar grunnskólans eru fjölmargar.  Megináhersla er lögð á að nemendur læri undirstöðuatriði í íslensku, stærðfræði og ensku en það sem þeir læra í öðrum greinum er ekki síður mikilvægt.  Einsleitni er ekki af hinu góða og framþróun í samfélaginu og flest störf sem sköpuð eru tengjast mörgum greinum, oft samspili verk-eða listgreina og bóklegra greina.  Í skólanum finnst okkur stundum nóg um öll þau verkefni sem við eigum að sinna og stundum væri gott að fá nokkrar vikur þar sem er bara hægt að ,,kenna".  En við vitum líka að lífið er ekki þannig, ólík verkefni mæta fólki í dagsins önn og það er okkar að sjá til þess að nemendur búi að fjölbreyttum undirbúningi til að geta tekist á við þau.

Hér er dæmi um náttúrufræðiverkefni sem unnið var af nemanda á unglingastigi.  

Hér eru krakkar í 4.bekk að vinna íslenskuverkefni.

Hér er svo mynd af grímuvinnu í leiklistartíma.

Árshátíðarvinna

Það styttist í árshátíð skólans.  Nemendur og kennarar eru byrjaðir að semja og undirbúa.  Formlegar æfingar hefjast svo innan skamms.  Þetta er spennutími í skólanum og rétt eins og með önnur verkefni eru sumir nemendur hæstánægðir meðan öðrum finnst svona vinna mjög erfið.  Við reynum að taka tillit til allra og nemendur fá ólík verkefni, en mikilvægt er að allir taki þátt á einhvern hátt.  Við hlökkum til að bjóða ykkur á sýningarnar sem verða með sama fyrirkomulagi og á síðasta ári.

Viðhorfskannanir

Á hverju ári gerum við könnun á líðan hjá nemendum.  Nemendur svara spurningum um líðan sína og bekkjarandann.  Kennarinn fær niðurstöður bekkjarins daginn eftir og ræðir þær og vinnur með þau atriði sem ekki eru eins og við teljum æskilegt.  Þessa dagana eru nemendur að svara könnunum og niðurstöður verða birtar í næsta fréttabréfi.  Það eru líka gerðar kannanir á viðhorfum foreldra.  Ísafjarðarbær tekur þátt í foreldrakönnun Skólapúlsins sem er úrtakskönnun sem gerð er á landsvísu.  Við fáum niðurstöður úr henni með vorinu og þar eru viðhorf foreldra í Ísafjarðarbæ borin saman við viðhorf foreldra á landsvísu.  Við biðjum svo alla foreldra að svara könnun sem við sendum út sjálf.   Þar eru svipaðar spurningar annað hvert ár.  Það er okkur mikilvægt að fá góða svörun svo við getum áttað okkur á hvort við erum á réttri leið að mati foreldra.  Í okkar könnun biðjum við ykkur að svara einu sinni fyrir hvert barn sem þið eigið í skólanum því viðhorf geta verið ólík gagnvart skólagöngu systkina.  Við biðjum þá sem ekki hafa svarað könnuninni okkar að gera það hið allra fyrsta.  Hér er hlekkur á könnunina.  

Að lokum

Skrifstofa skólans er opin frá 7:45 - 14:30 alla virka daga.  Mikilvægt er að tilkynna forföll annað hvort þangað eða inn á mentor við upphaf hvers skóladags sem nemendur eru veikir.  Síminn á skrifstofunni er 450 8300.