Fréttir frá Grunnskólanum á Ísafirði við byrjun skólaársins 2015-2016

Ágætu foreldrar

Nú erum við að hefja nýtt skólaár og eins og venjulega eru ýmsar breytingar á döfinni þó að margt sé í föstum skorðum.  Okkur er eðlilega brugðið eins og mörgum öðrum við nýjustu fréttir frá Námsmatsstofnun vegna niðurstaðna skóla sem tekið hafa upp kennsluaðferðina Byrjendalæsi og munum fylgjast vel með umræðunni og hvernig Háskólinn á Akureyri bregst við.  Við erum ekki komin með samanburðarniðurstöður úr okkar skóla en þær munu koma eftir samræmd próf á þessu hausti.

Við munum vinna enn frekar með niðurstöður þinganna sem haldin voru með nemendum og foreldrum á árinu 2014.  Þar voru dregin fram þau grunnatriði sem skipta mestu máli til að nemendur nái sem bestum árangri.  Þau atriði snúa að ábyrgð, vinnu og samskiptum heimila og skóla.  

Talsvert hefur verið framkvæmt í skólanum í sumar, búið er að taka matsalinn í gegn, hann er nú nýmálaður og með nýju gólfefni.  Nokkrar skólastofur hafa verið málaðar og keyptar nýjar töflur og borð á gangana.

Við bíðum spennt eftir að krakkarnir komi í skólann og vitum að margir þeirra eru líka farnir að bíða.

Skólasetning með nýju sniði

Við erum sannfærð um að við getum eflt námsárangur og þroska barnanna okkar með auknu samstarfi heimila og skóla.  Við þurfum að taka sameiginlega ábyrgð, eins og okkur ber samkvæmt lögum, á menntun barnanna.  Til að svo megi verða þurfa foreldrar að vera vel upplýstir um vinnulag og markmið.  Skólinn mun taka nýja útgáfu af mentor í gagnið nú í haust.  Þar er auðveldrara að setja inn upplýsingar en áður og gerum við ráð fyrir að mentorsíðurnar verði aðal upplýsingasíður bekkjanna.  Við ætlum einnig að biðja nemendur í 2.-10.bekk að setja sér markmið  áður en skólinn hefst.  Markmiðin eiga að miða að því að nemendur eflist um leið og þeir leggja sitt af mörkum til að taka ábyrgð á eigin námi og bæta skólabraginn.  Við biðjum ykkur að ræða þetta með krökkunum ykkar og hjálpa þeim við að setja sér raunhæf markmið sem eru líkleg til að leiða til framfara hjá þeim.  Á skólasetningardaginn munu svo allir nemendur koma í viðtöl ásamt foreldrum sínum þar sem rætt verður um markmið nemenda, I-pad samninga og fleira eftir því sem þurfa þykir.  Búið er að opna fyrir skráningar, í mentor, í foreldraviðtölin sem fara fram mánudaginn 24. ágúst.  

Að skrá sig í foreldraviðtal í mentor:  Þegar búið er að skrá sig inn, er fjólublár reitur sem heitir fjölskylduvefur og er hann valinn. Þegar það er gert kemur upp síða þar sem hægt er að skoða ástundun, dagbók og ýmislegt fleira. Á stiku hægra megin er svo hægt að bóka foreldraviðal. Nemendur á mið-og unglingastigi  á föstudaginn í tölvupósti sjálfsmatseyðublað sem þeir fylla út heima og hafa svo með sér í foreldraviðtalið.  Ef þið lendið í vandræðum með að skrá er bara að hringja í okkur.  

Í viðtölunum munu kennararnir verða með eyðublað til að skrá markmiðin á en nauðsynlegt er að börn og foreldrar séu búin að undirbúa sig heima og ákveða hvaða markmið er gagnlegast að setja fyrir veturinn.

Hér er mynd af markmiðseyðublaðinu sem kennarar verða með í foreldraviðtölunum á mánudag.

Lesturinn

Þegar talað er um ábyrgð á eigin námi er fyrst að nefna mikilvægi þess að lesa. Lestur er undirstaða náms í mjög mörgum námsgreinum og eftir að grunnfærni í lestri er náð er gert ráð fyrir að nemendur undirbúi sig fyrir aðrar námsgreinar með því að lesa heima. Þetta á við í það minnsta um íslensku, samfélagsgreinar, náttúrufræði og tungumál. Í þeim könnunum sem við höfum gert undanfarin ár hefur komið í ljós að mikill misbrestur er oft á þessu. Þetta er eitt af atriðunum sem við getum, í sameiningu, unnið með til að bæta námsárangur barnanna okkar. Nemendur hafa sagt að þeir vilji að þeim sé treyst til að bera ábyrgð á eigin námi. Við vitum að börn þurfa að læra að bera ábyrgð til að geta tekið ábyrgð á lífi sínu sem fullorðið fólk. Það er hlutverk foreldra og skóla að hjálpa börnum við að læra að bera þessa ábyrgð, þau þurfa að fá stuðning ykkar, og okkar, við að vinna þau verkefni sem það að bera ábyrgð á námi sínu felur í sér. Þið getið lagt ykkar af mörkum með því að fylgjast með hvort krakkarnir ykkar lesa heima. Hjá yngri nemendum er kvittað fyrir heimalestur, það er hvetjandi fyrir krakkana að það sé alltaf gert og þá sér kennarinn líka að foreldrar eru að fylgjast með. Að lesa heima í ákveðinn tíma á hverjum degi leiðir til framfara. Hjá eldri nemendum er alltaf ætlast til heimalesturs og þar getið þið stutt krakkana ykkar með því að spyrja hvort þeir séu búnir að lesa og um hvað þeir hafi verið að lesa. Þetta er líka mjög mikilvægt því án heimalestursins er ekki hægt að gera ráð fyrir þeim framförum sem nemandinn ætti annars að geta náð.

Fjallgöngur og ferðir

Eins og venjulega munum við hefja vetrarstarfið með fjallgöngum allra bekkja. Fjallgöngurnar eru mikilvægar til að efla samstöðu og félagsþroska nemenda því í þeim fá þeir tækifæri til að aðstoða samnemendur og  eiga í fjölbreyttum samskiptum um leið og þeir fræðast um umhverfi sitt og náttúruna.  Þið eruð að sjálfsögðu velkomin með í fjallgöngurnar ef þið hafið tök á að vera með.

7.bekkur byrjar með hefðbundinni Reykjaskólaferð sem stendur í fimm daga og 10.bekkur fer í sína Hornstrandaferð 25.og 26.ágúst.  9.bekkur fer á Hrafnseyri í fyrstu vikunni svo það verður nóg að gera hjá okkur um leið og við byrjum.

Kátar stúlkur á leið yfir á

Saman gerum við betur

Við viljum gera það sem við getum til að stuðla að sem bestum þroskatækifærum fyrir börn og unglinga.  Við vitum að þau verða að fá að reyna á vængina en það er ómetanlegt að hafa góðan stuðning heima við þegar eitthvað bjátar á.  Við hvetjum ykkur til að koma og tala við okkur ef áhyggjur vakna af námi eða öðru sem tengist líðan barnanna ykkar. Þegar við hjálpumst að finnum við yfirleitt leiðir sem virka.