Fréttabréf Grunnskóla Önundarfjarðar febrúar 2015

Nú er blessuð sólin farin að kíkja yfir fjallatoppana sem gleður okkur mikið þessa dagana. Með hækkandi sól byrjum við undirbúning fyrir árshátíð og eftir að hafa skoðað mörg handrit ákváðum við að taka fyrir leikritið Ævintýrabókin eftir Pétur Eggerz sem hefur margoft komið til okkar með leiksýningar frá Möguleikhúsinu. Hann samdi leikritið árið 1995 og blandar hann hinum ýmsu ævintýrapersónum saman í eitt stykki sem gerir það mjög skemmtilegt og kitlar aðeins hláturtaugarnar.

Nú eru 50 dagar í árshátíð og mikilvægt að halda vel á spöðunum. Nemendur eru búnir að fá handrit og mikilvægt er að lesa það vel heima og foreldrar aðstoði börnin í að læra textann utan að. Einnig væri gott ef foreldrar myndu hafa augun opin fyrir búningum sem hægt væri að nota.

Foreldrakönnun Skólapúlsins

Nú ættu þeir foreldrar sem lentu í úrtaki Skólapúlsins að vera búnir að fá tölvupóst um það. Það er mjög mikilvægt að allir svari svo niðurstöðurnar verði sem skýrastar og við getum nýtt okkur þær í að bæta skólastarfið.

Hér fyrir ofan má sjá samanburð á sykurinnihaldi morgunverðarkorns. Það hljóta flestir að sjá það að með því að bjóða börnunum sínum upp á morgunkornið í neðri línunni í morgunmat áður en farið er í skólann að það mun ekki hafa góð áhrif á framvindu náms. Þvert á móti að fá svona sykurskot veldur þreytu og sleni. Og þess má geta að hafragrautur inniheldur engan viðbættan sykur!!! Endilega farið inn á síðuna sykurmagn.is og kynnið ykkur þessi mál.

Foreldraviðtöl

Minnum á foreldraviðtölin sem eru 16.-17. febrúar. Þið munuð fá miða heim fljótlega með tímasetningu og þá er gott að hafa samband ef tíminn passar ekki. Starfsdagur er síðan á öskudaginn líkt og undanfarin ár.

Skellum svo inn hér í lokin þessu flotta jólavídeói því við erum svo ánægð með það :)