Fréttir af starfi Grunnskólans á Ísafirði í febrúar 2015

Kynningarfundir fyrir foreldra

Haldnir voru tveir kynningarfundir fyrir foreldra í byrjun árs þar sem helstu þróunarverkefni sem nú er verið að takast á við í skólastarfinu voru kynnt. Nokkuð margir foreldrar sáu sér ekki fært að mæta og því er hér örstuttur útdráttur úr því sem rætt var á fundunum.

Verkefnið ,,Stillum saman strengi“ snýst um að allir leik-og grunnskólar sveitarfélagsins taki saman höndum um að gera það sem þeir geta til að bæta námsárangur barnanna okkar. Ísafjarðarbær hefur sett sér skólastefnu sem í eru fjölmörg markmið. Flestum þeirra höfum við náð á undanförnum mánuðum en okkur hefur ekki gengið nógu vel að bæta árangur barnanna okkar á samræmdum prófum og því ætlum við núna að leggja meiri áherslu á það. Samræmd próf eru umdeild og alls ekki eini mælikvarðinn á skólastarf en þau eru einn af mælikvörðunum sem eru notaðir og við getum ekki sætt okkur við að vera undir landsmeðaltali á þeim mælikvarða frekar en öðrum. Allir skólarnir eru núna að gera aðgerðaáætlanir um hvernig er hægt að bæta árangur nemenda í íslensku og stærðfræði. Við þær áætlanir verður sjónum beint að nokkrum lykilatriðum sem verða metin oft og brugðist við á einstaklingsmiðaðan hátt hjá hverju barni fyrir sig. Þetta þýðir líka að mun meira verður leitað til ykkar, foreldra, um aukaþjálfun fyrir börnin ykkar í grunnatriðum ef þau ná ekki settum viðmiðum árganga. Við viljum að börnin okkar hafi eins góð tækifæri í framtíðinni og mögulegt er og erum tilbúin að leggja mikið á okkur til að það megi ganga eftir og vitum að þið eruð sammála okkur í þessu og tilbúin til að leggja verkefninu lið.

Hér í grunnskólanum er líka verið að vinna að aukinni tækniþekkingu nemenda og kennara. Netið er að gjörbreyta samfélagsgerðinni og atvinnuháttum um þessar mundir og við verðum að búa börnin okkar undir þátttöku í þeim heimi. Það felur í sér að þau þurfa að fá margskonar fræðslu um öryggismál á netinu því öflug tæki og greiður aðgangur kalla líka á aukna ábyrgð á því sem maður gerir á netinu. Krakkarnir okkar þurfa líka að læra að vinna með margvíslega miðla. Þessir miðlar hafa bæði kosti og galla en ef vel er á haldið trúum við því að aukin notkun upplýsingatækni í kennslu geri námið áhugaverðara fyrir nemendur og efli þá í skapandi hugsun.

Hér er dæmi um stærðfræðiverkefni sem drengir í 9.bekk unnu í janúar.

Lýðræði í skólastarfi

Annað stórt verkefni sem við vinnum jafnt og þétt að er að kenna nemendum um lýðræði með því að ástunda lýðræðisleg vinnubrögð. Sú vinna verður ekki metin með einföldum prófum en mun vonandi skila nemendum haldgóðri samskiptafærni og samfélagslegum skilningi þegar út í fullorðinsveröldina verður komið. Í fyrra vetur unnu nemendur að því að skilgreina lykilatriði sem þeir vilja halda í heiðri í skólanum. Núna er verið að vinna áfram með þessi atriði og allir eldri bekkirnir eru að gera skilgreiningar á því hvað þeir sjálfir geta gert til að ná þessum sameiginlegu markmiðum. Krakkarnir í 7.HG eru búnir að skilgreina hvað þeir vilja sjá, heyra og finna í skólanum og hvað þeir geta gert til að leggja sitt af mörkum til að skapa vinnufrið, efla ábyrgð og vinna gegn einelti. Þessi vinna var unnin í hópum og tók nokkrar kennslustundir.  Krakkarnir eru orðnir virkilega flinkir í þessu vinnulagi og kunna vel að komast að samkomulagi um það sem máli skiptir.

Svona vilja nemendur í 7.HG hafa skólann sinn og til hliðar er listi yfir það sem þeir sjá að þeir geti sjálfir lagt af mörkum.

Hin hefðbundnu maskaböll voru á sínum stað á sprengidag.  Nemendur mættu í búningum í skólann og skemmtu sér mjög vel.  Skapast hefur hefð fyrir því að aðeins nemendur 1.-7.bekkjar taki þátt í þessu en núna mættu flestir nemendur 8.bekkjar líka í búningum og því hefur verið ákveðið að á næsta ári verði öllum sem mæta í búningum boðið á maskaball.  Eldri nemendur myndu þá geta tekið þátt með þeim yngri og verið þeim góð fyrirmynd.

Grímuböll

Skrautlegir maskar á balli

Stóra upplestrarkeppnin

Stóra upplestrarkeppnin er nú í fullum gangi.  Allir nemendur 7.bekkja á svæðinu hafa æft upplestur frá því í nóvember og til loka febrúarmánaðar en þá velja skólar sína fulltrúa til að taka þátt í lokakeppninni.  Að þessu sinni verður lokakeppnin í Hömrum föstudaginn 6.mars kl.20:00.  Þetta er alltaf mjög hátíðleg stund þar sem nemendur lesa sögubrot og ljóð.  Milli umferða flytja aðrir nemendur tónlistaratriði sem þeir hafa æft með sínum tónlistarkennurum.  Dómarar í keppninni koma úr ýmsum áttum, sumir héðan af svæðinu en aðrir utan frá, en allir eiga þeir sameiginlegt að hafa áhuga og þekkingu á áheyrilegum og vönduðum upplestri. Í hléi eru svo veitingar.  Það eru allir velkomnir á hátíðina og nemendur og foreldrar úr 6. og 7. bekk eru sérstaklega hvattir til að mæta.  

Hér má sjá hópinn sem keppti um þátttökurétt í lokakeppninni í Hömrum.

Óveðursdagur

Ísafjarðarbær hefur gefið út viðmið um hvenær loka megi stofnunum vegna óveðurs. Foreldrar fengu þessi viðmið send í pósti og þau eru einnig birt á heimasíðu skólans. Þar kemur m.a. fram að stofnunum bæjarins sé ekki lokað nema algjöra nauðsyn beri til.  

Foreldrar eru jafnframt hvattir til að fylgjast með veðurspám og fréttum af veðri og leggja sjálfir mat á hvort fylgja þarf barni í skóla. Meti foreldrar aðstæður svo að ekki sé óhætt að börn þeirra sæki skóla þá skulu þeir tilkynna skólanum um það og lítur skólinn á slík tilvik sem eðlileg forföll. Hið sama gildir ef foreldrar lenda í vandræðum á leið sinni til skóla og verða frá að hverfa.  Skólinn er alltaf opinn en það er ekki endilega hægt að halda uppi hefðbundinni kennslu.

Í gær var einmitt einn af þessum óveðursdögum.  Strætó ók ekki og margir áttu erfitt með að komast um.  Í upphafi skóladags voru um 50 nemendur í húsinu en þeim fjölgaði nokkuð þegar leið á morguninn og undir hádegi voru þeir orðnir um 70.  Ýmslegt var gert með öðrum hætti en venjan er, til dæmis fengu nemendur í 3.og 4. bekk að velja um að fara annað hvort í dans eða sund.  Nemendur í 8., 9. og 10. bekk  voru allir saman í einni stofu.  Hluti þeirra fór svo í heimilisfræði og bakaði fyrir félagana.  

Foreldrafélagið

Það er hverjum skóla ómetanlegt að eiga í góðu samstarfi við foreldra.  Stuðningur foreldra við nám barna sinna er sá einstaki þáttur sem talinn er hafa mest vægi varðandi námsárangur.  Aðalfundur foreldrafélags grunnskólans á Ísafirði var haldinn í vikunni, þar var fámennt en góðmennt.  Skipt var um stjórn í félaginu og í nýkjörinni stjórn eru: Gísli Elís Úlfarsson, Sif Huld Albertsdóttir, Lína Björg Tryggvadóttir, Sigurbjörn Ingi Magnússon og Harpa Lind Kristjánsdóttir.  Um leið við óskum nýrri stjórn velfarnaðar viljum við þakka fráfarandi stjórnarmönnum fyrir gott samstarf.  Það er mikilvægt fyrir skólann að eiga öflugt foreldrafélag en það er þó mikilvægast fyrir börnin ykkar að þið standið vel saman og takið virkan þátt í þeim hluta lífs þeirra sem fram fer í skólanum.  Saman náum við betri árangri.

Óskilamunir

Enn og aftur minnum við á óskilamunina sem safnast upp bæði í skólanum og í sundhöllinni. Hægt er að vitja þeirra á skólatíma alla daga.