Sagnorð

9. HK Ísafirði vor 2015

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Nokkur orð áður en við byrjum

Þessi verkefni eigið þið að vinna vikulega og skila á svona tackk síðu eins og þessari sem þið sendið okkur slóðina á. Ef þið lendið í einhverjum vandræðum getið þið sent tölvupóst til Hörpu og/eða Gulla

Þið þurfið að gæta þess að setja verkefnin skipulega upp. Oft eigið þið að nota texta úr frjálslestrarbókunum ykkar og þá þurfið þið að gefa upp nafnið á bókinni, höfundinn og blaðsíðutal. Einnig er gott að venja sig á að merkja öll verkefni með dagsetningum.

Ef þið ætlið að gera eitthvað öðruvísi en verkefnalýsingin segir til um, þurfið þið að útskýra hvers vegna þið gerið það. (sjá t.d. dæmið hér fyrir neðan)

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Vika 1 - tíðir sagnorða

Nútíð – sögnin segir frá einhverju sem er að gerast núna eða gerist í framtíðinni.
Þátíð – sögnin segir frá einhverju sem er liðið.

Vika 1 - verkefni

Veldu texta úr bókinni þinni (u.þ.b. 70-100 orð) skrifaðu textann upp og breyttu um tíð á honum. Feitletraðu þau orð sem breytast við að skipta um tíð. Skrifaðu einnig þínar eigin vangaveltur um breytingu merkingar textans við að skipta um tíð.

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Vika 2 - tölur sagnorða

Eintala – sögnin á við um einn hlut, persónu eða athöfn.

Fleirtala – sögnin á við um fleiri en einn hlut, persónu eða athöfn.

Vika 2 - verkefni

Veldu þér málsgrein/ar úr bókinni þinni (u.þ.b. 70-100 orð). Skrifaðu textann upp, feitletraðu sagnorðin og greindu tölu þeirra. Hvers vegna varð þessi textabútur fyrir valinu, hvað er verið að tala um?

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Vika 3 - persónur sagnorða

Sagnir í persónuháttum hafa þrjár persónur, fyrstu, aðra og þriðju persónu. Gerandinn í setningunni gefur persónuna til kynna. Orðið sem ákveður persónu sagnarinnar er alltaf í nefnifalli.

Ef gerandi setningarinnar er:

 • ég eða við er sögnin í 1. persónu
 • þú eða þið er sögnin í 2. persónu
 • eitthvað annað en þessi fjögur orð er sögnin í 3. persónu

Vika 3 - verkefni

Veldu þér málsgrein/ar úr bókinni þinni (u.þ.b. 70-100 orð). Skrifaðu textann upp, feitletraðu sagnorðin og greindu persónu þeirra. Að auki skalt þú skáletra orðið sem ákveður persónu sagnarinnar. Voru allar sagnirnar í sömu persónu? Hvers vegna ætli það sé (eða sé ekki)?

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Vika 4 - ópersónulegar sagnir

Persónulegar sagnir laga sig að fallorðinu sem stendur með þeim, ópersónulegar sagnir eru alltaf eins.
Ef ekkert fallorð í nefnifalli stendur með sögn er hún ópersónuleg og er þá alltaf greind í 3. persónu eintölu. Alveg sama hver eða hverjir gerendur setningarinnar eru.

 • Sögnin breytist ekki þó persónunni sé breytt:
  Þig dreymir, okkur dreymir, Jóa Dreymir - sögnin breytist ekki og er þá í 3.p.et í öllum tilfellum.
 • Ekkert fallorð: rignir? – sögnin er í 3.p. et.
 • Fallorðið er í aukafalli: Okkur þyrstir – sögnin er í 3.p. et. þó að orðið Okkur sé fornafn í 1. persónu, fleirtölu.

Vika 4 - ítarefni

Vika 4 - verkefni

Afritaðu þennan texta og feitletraðu ópersónulegu sagnirnar.

Valda langar í steik. Hafþóri virðist fátt ætilegt í eldhúsinu. Auði hungrar í mat og það batnar ekki þótt Anna María borði kleinur. Mér sýnist Jóhanna vera stærri. Okkur velgir við matnum. Hann lét sér fátt um finnast. Snjóaði mikið? Les Ína mikið? Syfjar þig? Hver kann þetta lag? Lögreglan grunar Birki en hana skortir sannanir. Snjólaugu munar um minna. Karl ók hratt. Rúrý vantar blek. Stjórnmálamennina langar í kosningar. Ástandið versnar. Magnús vann lengi í gær. Guðrún heyrði hávaðann. Harpa ávítaði drenginn. Steini kól í frostinu. Bátinn rak á sker. Kirkjuna ber við himin. Tönju geðjast vel að Láru. Birnu setur hljóða. Einar setur bókina á borðið. Þið sitjið og ykkur stendur á sama þótt við stöndum. Mér líkar vel við þig en undrar hve latur þú ert. Okkur mislíkaði við hann. Okkur óraði ekki fyrir því. Mig minnti að Óliver hefði minnt þig á fundinn. Hún líður áfram í sæluvímu en mér líður illa. Heiðdísi kólnar þó að sólin skíni. Tinna lenti vélinni.

Afhverju ætli sagnirnar séu kallaðar ópersónulegar?

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Vika 5 - sjálfstæðar og ósjálfstæðar sagnir

Sjálfstæðar sagnir segja heila hugsun með orðinu sem ákveður persónu hennar, aðrar sagnir eru ósjálfstæðar.

 • Sjálfstæð sögn: Unnur grætur. - 'Unnur grætur' er heil hugsun.
 • Ósjálfstæð sögn: Albert verður læknir. 'Albert verður' er ekki heil hugsun.

Vika 5 - verkefni

Finndu 10 setningar með sjálfstæðum sögnum í bókinni þinni. Eru þetta langar eða stuttar setningar? Flóknar?

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Vikur 6 og 7 - áhrifssagnir og áhrifslausar

Áhrifssögn er sögn sem stjórnar falli. Það er að segja veldur því að fallorð sem sögnin á við er ekki í nefnifalli. Orðið sem sögnin stjórnar fallinu á er kallað andlag.

 • Ég prjónaði (áhrifssögn) áður fyrr margar peysur (andlag -fallorð í þolfalli)

Ein áhrifssögn getur stjórnað fleiri en einu andlagi sem geta þá verið í mismunandi föllum.

 • Ég sagði (áhrifssögn) börnunum (andlag - fallorð í þágufalli) mínum fallegar sögur (andlag - fallorð í þolfalli) fyrir svefninn.

Vika 6 - verkefni

Afritaðu þessar setningar, feitletraðu áhrifssagnirnar, skáletraðu andlögin og skráðu fall þeirra í sviga fyrir aftan.

Formaðurinn reifaði málið. Nonni sækir stundum blöðin. Ferðamennirnir hlóðu vörðu. Þórður neytti ekki víns. Guðný bauð mér á ball. Við báðumst afsökunar. Við mættum mörgum bílum. Ég sá kvikmyndina í gær. Kennarinn þekkir öll börnin. Sigfús Jónsson réð ferðinni. Grímur saknar unnustu sinnar. Heilsaðu manninum. Biskupinn vígði kirkjuna. Plötusnúðurinn spilaði lagið. Jón Páll lyfti tunnunni.

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Vikur 6 og 7 - áhrifssagnir og áhrifslausar

Sögn sem stýrir ekki falli er kölluð áhrifslaus sögn. Fallorðið sem stendur með henni er í nefnifalli og er kallað sagnfylling.

 • Ég er (áhrifslaus sögn) ekki flugmaður (fallorð í nefnifalli)

Vikur 6 og 7 - ítarefni

Vika 7 - verkefni

Veldu þér málsgrein/ar úr bókinni þinni (u.þ.b. 70-100 orð). Skrifaðu textann upp, feitletraðu áhrifslausu sagnirnar og skáletraðu sagnfyllingarnar.

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Vika 8 - samsettar sagnir

Tvær eða fleiri sagnir sem mynda eina heild eru kallaðar samsettar sagnir.

 • Samsett sögn: Ég hef smíðað fallegt hús. – hef smíðað – sagnirnar mynda heild saman.
 • Tvær ótengdar sagnir: Ég smíðaði hús sem er fallegt. – smíðaði er – sagnirnar mynda ekki heild saman.

Vika 8 - verkefni

Skrifaðu u.þ.b. 100 orða texta um bókina sem þú ert að lesa og skáletraðu öll pör samsettra sagna í textanum.

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Vika 9 - aðalsagnir og hjálparsagnir

Þegar tvær sagnir standa saman er sú sögn sem segir til um verknaðinn sem verið er að lýsa aðalsögnin en hin er kölluð hjálparsögn.

Hjálparsögnin segir yfirleitt til um á hvaða tíma verknaðurinn gerist eða á hvaða stigi hann stendur.

Algengustu hjálparsagnirnar eru hafa, munu og vera

 • Ég hef lesið Harry Potter. Lesið er aðalsögnin sem lýsir verknaðinum. Hef er hjálparsögnin sem segir okkur að ég er búin að lesa bækurnar.
 • Fleiri en ein hjálparsögn: Helgi mun hafa verið (þrjár hjálparsagnir) vinna (ein aðalsögn) í alla nótt.

Vika 9 - verkefni

Afritaðu þennan texta. Feitletraðu aðalsagnirnar og skáletraðu hjálparsagnirnar.

Olga skólastjóri var talinn slyngur stjórnandi. Hún var að skrifa í bók og leit upp þegar Tinna kom inn. Tvær rúður höfðu verið brotnar í skólahúsinu og vildi skólastjórinn fá að vita hver hefði kastað steinunum.
'Þú getur hjálpað mér, Tinna, Þú munt vita hver braut rúðurnar.'
'já,' svaraði Tinna, 'en ég hef lofað að segja það ekki.'
'Og þú munt vilja standa við það sem þú hefur lofað. Maður á alltaf að halda heit sín,' svaraði Olga. 'Og hverjum gafstu svo þetta loforð, Tinna mín?'
'Henni Jóhönnu.'

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Vika 10 - myndir sagna

Sagnir hafa þrjár myndir, germynd (gm), þolmynd (þm) og miðmynd (mm). Mynd sagnarinnar ræðst af því hvert athyglin í setningunni beinist. Ef athyglin beinist að gerandanum er sögnin í germynd. Ef athyglin beinist að þolandanum er hún í þolmynd og gerandinn verður sjálfur fyrir verknaðinum er sögnin í miðmynd.

 • Germynd: Kokkurinn steikir kjötið. – athyglin beinist að gerandanum, kokkinum. Ósamsett sögn bæði í nútíð og þátíð
 • Þolmynd: Kjötið er steikt. – athyglin beinist að þolandanum, kjötinu. Myndast með hjálparsögninni vera.
 • Miðmynd: Kjötið steikist. – Gerandi og þolandi er sá sami eða enginn. Endar alltaf á –st í öllum persónum.

Vika 10 - ítarefni

Vika 10 - verkefni

Finndu 3 dæmi úr bókinni þinni um hverja mynd sagna, skrifaðu setningarnar upp og mundu að tilgreina blaðsíðutöl við hverja setningu.

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -