Fréttir úr Grunnskólanum á Ísafirði
í lok nóvember 2014


Að vanda hefur ýmislegt verið um að vera hjá okkur þessar síðustu vikur.  Við tókum þátt í forvarnavikunni og búið er að setja Stóru upplestrarkeppnina. Við fáum líka margskonar heimsóknir í skólann og okkur bjóðast fjölbreytt fræðsluerindi. Elísabet Lorange, listmeðferðarfræðingur, var með sjálfsstyrkingarnámskeið í 8.bekk og framhald frá síðasta vori á námskeiði fyrir 5.bekk. Sigríður Dögg, kynfræðingur, var með kynfræðslu fyrir unglingastigið.  Hún var líka með fræðslu fyrir starfsmenn og foreldra.  Efni sem snýst um kynlíf og klám er öllum aðgengilegt á netinu og því þurfa börn og unglingar nútímans leiðbeiningar um hvernig er skynsamlegt að umgangast efni þetta efni eins og allt annað.  

Samræmd próf

Niðurstöður úr samræmdu könnunarprófunum liggja nú fyrir.  Nemendum gekk misvel eins og alltaf en heildarniðurstöður fyrir skólann eru ekki á þann veg sem við vildum.  Okkur hefur gengið ágætlega í stærðfræði undanfarin ár en nú varð breyting á því og við erum að sjálfsögðu ekki ánægð með það.  Verið er að skoða niðurstöðurnar til að greina veikleikana og búið er að gera aðgerðaáætlun sem miðar að því að vinna upp það sem á vantar.

Comeniusarverkefni

Comeniusarverkefnið All different, all the same, Europe‘s Children, sem skólinn er aðili að er nú á seinna ári sínu. Það er lærdómsríkt fyrir krakkana okkar að kynnast aðstæðum barna annars staðar í heiminum.  Við heyrum oft athugasemdir sem gefa til kynna að nemendur sem taka þátt í þessu verkefni átti sig betur á hvað við höfum það gott hér á landi.  Núna í nóvember fóru kennararnir sem stýra verkefninu í heimsókn til Kýpur og hittu samstarfshópinn þar.  Ein nemendaferð er eftir og er það heimsókn til Póllands sem farin verður í maí.

Jól í skókassa

Sjöundi bekkur tók þátt í verkefninu ,,Jól í skókassa".  Nemendur komu með hluti að heiman til að setja í kassana.  Krakkarnir voru virkilega duglegir í þessu og tókst að búa til 20 skókassa með gjöfum sem sendar verða til barna sem búa við bágar aðstæður í Úkraínu.  Það er þroskandi fyrir ungt fólk að taka þátt í samfélagsverkefnum af þessu tagi.

Verk nemenda

Við leggjum mikla áherslu á að verk nemenda séu sýnileg í skólanum.  Hér má sjá hvernig búið er að koma fyrir lítilli sýningu fyrir utan myndmenntastofuna.

Samsöngur

Í hverri viku er samsöngur hjá yngsta- og miðstigi.  Sveinfríður Olga skólastjóri spilar undir og stýrir söngnum.  Hér eru sýnishorn frá síðustu viku.

Rúmfræðiverkefni

Undanfarna daga hafa nemendur 10.bekkjar verið að vinna að rúmfræðiverkefni.  Krakkarnir búa til öskju og reikna svo allt um hana sem þeir mögulega geta.  Þetta krefst margskonar samvinnu af hálfu nemenda og reynir á ýmis þekkingarsvið.  Þetta fellur einnig mjög vel að vinnu með grunnþætti menntunar því við þetta fá nemendur tækifæri til að nota sköpunarkrafta sína, tala saman og komast að samkomulagi um hvað á gera og hvernig.

Nemendur 10.bekkjar við rúmfræðivinnu.

Samskipti milli nemenda

Alla daga er unnið með samkipti milli nemenda á einhvern hátt.  Draumur okkar er að nemendur geti tekið ábyrgð á námi sínu og hegðun og að því erum við að vinna.  Krakkar þurfa að læra að frelsi og réttindi eins, mega ekki skerða frelsi eða réttindi annarra.  Þetta getur verið flókið í stórum hópi, sérstaklega þar  sem börn eru oft ekkert sérstaklega að hugsa um hvaða afleiðingar hegðun þeirra hefur fyrir aðra.  Í 5.bekk var verið að vinna sérstaklega með skólabraginn eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.  

Svipuð verkefni og þetta hanga víða á göngum skólans um þessar mundir.

Samskipti fara fram allstaðar í samfélaginu og við getum öll lagt okkar af mörkum til að hafa þau eins góð og hægt er og þá ekki síst þið foreldrar.  Hér er hlekkur á grein sem Hermann Jónsson foreldri skrifar, við hvetjum ykkur til að lesa hana.

http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_HermannJ/e..

Fræðslufundur fyrir foreldra

Þriðjudaginn 25. nóv. kl.20:00 (á morgun) bjóða samtökin Heimili og skóli foreldrum hér á svæðinu upp á fræðsluerindi.  Erindið hefur þrjár fyrirsagnir, það eru: samtaka foreldrar, rafrænt uppeldi og hvað er til ráða.  Fræðslufundurinn verður í sal Grunnskólans á Ísafirði.

Leikrit í tilefni 1.des

Hópur nemenda æfir nú af fullum krafti fyrir 1.des. leikritið.  Að þessu sinni munu nemendur sýna leikritið ,,Beðið eftir go.comair.  Sýningar verða föstudaginn 28.nóv. kl.19:30 og laugardaginn 29.nóv. kl.14:00.  Vonandi sjá sem flestir sér fært að koma og sjá hvað krakkarnir okkar hafa verið að gera.  Hér má sjá hluta leikaranna á æfingu.

Comment Stream

3 years ago
0

Vá frábært fréttabréf!

3 years ago
0

Glæsilegt.

3 years ago
0

Frábært fréttabréf - virkilega gaman að sjá bæði myndir og myndbönd. Til hamingju með þetta GÍ!

3 years ago
0

Þetta er glæsilegt fréttabréf og góð viðbót að fá myndskeiðin. Ég vil þakka fyrir hvað þetta er alltaf hlaðið af skemmtilegu efni :)

3 years ago
0

Þetta er virkilega flott!

3 years ago
0

snilldar form á fréttabréfi

3 years ago
0

Þetta lítur mjög vel út og gaman að sjá ykkur nýta tæknina sem er í boði :)

3 years ago
0

Frábært. Takk fyrir flott fréttabréf. :)

3 years ago
0

Glæsilegt ;)

3 years ago
0

Frábært og skemmtilegt fréttabréf