1990-2000

Síðasti áratugur 20. aldar

Byggt á Wikipedia. Hlekkir vísa á heimildarmyndir.

Tíundi áratugur 20. aldar var að verulegu leyti markaður af miklum átökum. Yfirleitt voru átökin bein afleiðing af atburðarás áranna og áratuganna á undan.

Írak hafði á níunda áratugnum háð stríð við nágrannaríkið Íran. Það hafði kostað óhemjumikið fé og staðan í Írak var orðin ískyggileg í upphafi tíunda áratugarins. Saddam Hussein, einræðisherra Íraks, sakaði annað nágrannaríki, Kúveit, um að undirbjóða verð á olíu (selja hana of ódýrt). Þar sem olía var aðal útflutningsvara Íraks skipti miklu máli að verð hennar væri sem hæst. Vestræn ríki höfðu hinsvegar hag af því að olían væri sem ódýrust enda urðu þau sífellt háðari olíu og olíuvörum, eins og bensíni.

Í byrjun ágúst 1990 gerði Írak innrás í Kúveit og lagði landið undir sig. Vestræn ríki brugðust ókvæða við og nokkrum mánuðum seinna, í janúar 1991, gerði stórt herlið margra ríkja á vegum SÞ (Sameinuðu þjóðanna) árás á her Íraka. Á aðeins fjórum dögum tókst að hrekja Íraka út úr Kúveit. Sameinuðu þjóðirnar létu þar við sitja og gripu ekki til sérstakra ráðstafana þegar smærri þjóðflokkar innan Íraks gerðu uppreisn. Sú uppreisn var barin á bak aftur með ægilegri hörku og vísbendingar eru um að þar hafi efnavopn (eiturgas) verið notuð gegn óbreyttum borgurum með hörmulegum afleiðingum.

Eftir hrun Sovétríkjanna háðu Rússar stríð gegn skæruliðum og hermönnum í Téténíu. Mannfallið var gríðarlegt og um miðjan 10. áratuginn kaus Boris Jeltsín að semja um frið. Stríðið blossaði þó upp aftur undir lok áratugarins í kjölfar hryðjuverkaárása í Rússlandi sem Téténum var kennt um.

Í Júgóslavíu logaði allt í ófriði. Eftir hrun Austurblokkarinnar liðaðist landið í sundur. Það hófst með því að Króatía og Slóvenía lýstu yfir sjálfstæði frá Júgóslavíu. Júgóslavneski herinn, sem laut að mestu stjórn Serba, reyndi að halda ríkinu saman með valdi. Brátt fylgdi Bosnía-Hertzegóvína í kjölfarið. Átökin urðu alræmd fyrir hörku og hryllilega stríðsglæpi. Sarajevó, höfuðborg Bosníu, var til að mynda umkringd af leyniskyttum sem skutu á óbreytta borgara mánuðum saman. Á sama tíma fór í gang þjóðarmorð. En þá reynir einn þjóðflokkur að ná yfirburðastöðu með því að myrða meðlimi annarra þjóðflokka. Fólki var skipulega safnað saman og það myrt og sett í fjöldagrafir. Stríðinu lauk með tapi Serba um miðjan áratuginn. Nokkrum árum seinna hófust átökin aftur þegar íbúar í héraðinu Kósóvó kröfðust aðskilnaðar frá Serbíu. Þeir töldu sig tilheyra nágrannaríkinu Albaníu. Serbar börðust enn á móti og aftur komu fram sannfærandi ásakanir um hræðilega stríðsglæpi. Úr varð að Nató gerði loftarásir á Serba sem gáfust upp í kjölfarið.

Þannig klofnaði Júgóslavía upp í mörg ríki: Serbíu, Króatíu, Bosníu-Hertzegóvínu, Svartfjallaland, Makedóníu og Slóveníu. Auk Kósóvó.

Í Afríkuríkinu Rúanda sauð upp úr eftir margra áratuga spennu milli tveggja ættstofna, Hútúa og Tútsa. Öfgamenn í hópi Hútúa höfðu smám saman komið á koppinn mjög róttækri hugmyndafræði um yfirburði Hútúa yfir Tútsa og snemma árs 1994 var undirbúin með leynd árás sem myndi svo gott sem útrýma Tútsum. Leyniorð voru ákveðin og á fyrirframákveðnum degi voru skipanir gefnar m.a. gegnum útvarp um að láta til skarar skríða. Næstu hundrað daga var hálf milljón manna drepin. Þegar yfir lauk hafði um fimmtungur þjóðarinnar (allt að milljón manns) látið lífið. Sameinuðu þjóðirnar voru harðlega gagnrýndar fyrir aðgerðarleysi og ónæg viðbrögð og sú gagnrýni heyrðist sífellt oftar að alþjóðasamfélagið léti sína eigin hagsmuni en ekki mannréttindi ráða stórum ákvörðunum. Þannig væri auðvelt að fá þjóðir heims til að berjast vegna olíu en ekki vegna þjóðarmorða.

Af öðrum átökum má nefna að í Los Angeles í BNA urðu miklar óeirðir árið 1992 eftir að fjórir lögreglumenn börðu þeldökkann mann til óbóta þegar hann streittist á móti þeim við handtöku. Atburðurinn náðist á myndband. Þegar lögreglumennirnir voru sýknaðir fyrir árásina í réttarhöldum þar sem bæði dómarinn og allir kviðdæmendur voru hvítir braust út mikil reiði. Í Los Angeles urðu mikil eignaspjöll og 53 voru myrtir.

Í Sómalíu braust út borgarastyrjöld sem ekki sér fyrir endann á og í Afganistan komust Talíbanar til valda en þeir eru öfgasinnaðir múslimar sem krefjast algjörrar hlýðni við trúarlegar reglur.

Á áratugnum fengu Bandaríkjamenn að kynnast sínum skerfi af hryðjuverkum. Árið 1993 reyndi hópur tengdur Al Kaída að fella Tvíburaturnana (World Trade Center) með því að koma fyrir sprengjum í bílakjallara turnanna. Turnarnir féllu ekki en sex manns dóu og atburðurinn skaut Bandaríkjamönnum skelk í bringu. Átta árum seinna féllu turnarnir eftir að flugvélum var flogið á þá. Árið 1995 var Alríkisbyggingin í Oklahóma-borg sprengd með bílasprengju til að hefna fyrir misheppnaða árás Alríkislögreglunnar (FBI) á sértrúarsöfnuð sem talinn var selja öflug og ólögleg vopn. Árásin á söfnuðinn kostaði 76 manns lífið en sprengjan í Oklahóma drap 168. Í báðum tilfellum dóu mjög mörg börn.

Í Bretlandi gerðu írskir andspyrnumenn reglulegar árásir á Breta til að berjast gegn breskum yfirráðum á N-Írlandi með mannfalli og eignatjóni.

Ný ríki urðu til víðar en við klofning gömlu Júgóslavíu. Eritrea sleit sig frá Eþíópíu og Tékkóslóvakía klofnaði í tvö ríki: Tékkland og Slóvakíu.

Miklar tækniframfarir urðu á áratugnum. Veraldarvefurinn (World Wide Web) varð aðgengilegur almenningi og markaði upphaf internetnotkunar almennings. Spjallforrit og tölvupóstur komst líka í almenna notkun. Það gerðu farsímar einnig. Þeir höfðu verið til en voru bæði stórir og dýrir. Nú urðu þeir meðfærilegir og aðgengilegir. Fyrsti mp3 spilarinn komst á markað og DVD spilarinn var fundinn upp. Ein vinsælasta græjan var ferðageislaspilari. Margir notuðu líka svokallaða friðþjófa (e. pager), en það var tæki sem hægt var að senda í stutt talnaskilaboð. Fyrsta tölvuteiknaða teiknimyndin í fullri lengd kom út. Hún hét Leikfangasaga (e. Toy Story). Undir lok áratugarins fylltist meira og minna öll heimsbyggðin miklum áhyggjum vegna ársins 2000. Talið var að megnið af tölvum í heiminum myndu hætta að virka því þær kynnu ekki að fara úr ártalinu 99 í 00. Óttinn reyndist að mestu ástæðulaus.

Í vísindum voru gerðar nokkrar grundvallaruppgötvanir. Fyrsta reikistjarnan fannst utan okkar sólkerfis. Fyrsta spendýrið var klónað – en það var skoska kindin Dollý. Hún var nákvæmt afrit af móður sinni. Dollý dó fyrir aldur fram enda virtist hún eldast hraðar en aðrar kindur. Byrjað var að kortleggja erfðamengi mannsins og í fyrsta skipti var tekið mark á rannsóknum á erfðaefni í sakamálum. Hubble geimsjónaukinn var sendur á loft og gerbreytti sýn okkar á alheiminn. Fyrstu tilraunir til lækningar á alnæmi (AIDS) fóru að skila árangri en fram að því hafði sjúkdómurinn verið sjálfkrafa dauðadómur. Hale-Bopp halastjarnan heimsótti sólkerfið í fyrsta skipti í 4.200 ár (og undarlegur sértrúarsöfnuður í BNA framdi fjöldasjálfsmorð til að taka sér far með halastjörnunni inn í eilífðina). Fyrstu svartholin fundust sem og ummerki um hulduefni í alheiminum. Loks má nefna að stærðfræðingnum Andrew Wiles tókst að sanna síðustu setningu Fermats (sem fram að því hafði verið álitið svotil útilokað).

Þriðja bylgja femínismans fór af stað og setti kastljósið á slæma meðferð á konum, ósanngjarnt samfélag og mátt kvenna. Konur fóru að sjást í valdamiklum embættum, m.a. í BNA í fyrsta sinn.

Langvinsælasti bókaflokkur tímabilsins hófst árið 1997. Þegar upp var staðið voru bækurnar orðnar sjö og kvikmyndirnar átta. Höfundurinn var J.K. Rawlings og aðalpersónan var Harry Potter.

Samantekt (glósur)

Kvikmyndir um tímabilið


Persaflóastríðið (Fyrra Íraksstríðið):  

(Einkunn á imdb er innan sviga)

Courage Under Fire (6,6)

The One That Got Away (6,4)

Jarhead (7,1)

Three Kings (7,2)

Lektionen in Finsternis (8,1)

Stríðið í Téténíu

Fanginn í fjöllunum (7,7)

Stríð (7,6)

Borgarastríðið í Júgóslavíu

As If I'm Not There (7,3)

Behind Enemy Lines (6,4)

No Man's Land (8,0)

Pretty Village, Pretty Flame (8,5)

Shot Through The Heart (7,3)

Savior (7,3)

Þjóðarmorðið í Rúanda

Hotel Rwanda (8,2)

Shooting Dogs (7,7)

Sometimes in April (7,9)

Shake Hands with the Devil (7,8)

Óeirðirnar í Los Angeles

Malcolm X (7,7) (Myndin hefst á myndbandinu af lögreglunum að berja Rodney King)

Riot (6,5)

Freedom Writers (7,5) Gerist eftir óeirðirnar í sama samfélagi

American History X (8,6) Aðalpersónurnar rökræða Rodney King málið

Síðasta setning Fermats

Heimildarmynd (Horizon)

Kort