Fréttir af starfi Grunnskólans á Ísafirði í mars 2015.

Að þessu sinni litast nánast öll vinna marsmánaðar af undirbúningi fyrir árshátíð.  Í yngri bekkjunum sjá kennarar um að semja árshátíðaratriðin og þar þarf að hafa í huga að hægt sé að finna öllum nemendum hlutverk við hæfi.  Eftir því sem nemendur eldast hafa þeir meira um að segja hvernig atriðin eru og á miðstiginu koma nemendur með hugmyndir sem kennararnir vinna úr þannig að hægt sé að setja þær á svið.  Á unglingastiginu sjá nemendur að mestu sjálfir um að móta atriðin en njóta aðstoðar kennaranna sinna við að búa til texta og setja atriðin saman.  Þessi vinna reynir mikið á sköpun, tjáningu og samskipti og tekur því oft talsvert á.  Það er oft flókið að velja í hlutverk þannig að allir séu sáttir. Sumir nemendur vilja helst vera í áberandi atriðum meðan aðrir vilja alls ekki fara á svið og allt þar á milli. Svo þarf að bregðast við óvæntum uppákomum eins og veikindum og öðrum breytingum í nemendahópnum.  Nemendur sjá þetta ferli oft í öðru ljósi en kennarar en þá ber að hafa í huga að það er kennarinn sem hefur heildarmyndina í huga.  Það er líka þroskandi að takast á við að fá ekki endilega það sem maður vill eða takast á við það sem manni finnst erfitt.  Við undirbúning árshátíðar þarf að gera fleira en semja ogt æfa leikrit.  Það þarf að búa til leikmuni, farða, skreyta skólann og vinna við ljós og hljóð.  Nemendur vinna að þessu öllu undir handleiðslu starfsmanna skólans. Þetta er hluti af því að taka ábyrgð og leggja sitt af mörkum til að heildarmyndin gangi upp.

Hér má sjá nemendur úr 7.bekk vinna að skreytingum í anddyri skólans.

Sögugerð

Það er fleira í gangi í skólanum er árshátíðarvinna.  Í fjórða bekk hafa nemendur verið að æfa sig í að búa til sögur.  Til að auka fjölbreytni í sögugerðinni bjuggu nemendur til hugtakakort. Þetta hjálpar nemendum að komast af stað og vinna sögurnar sínar þannig að þær hafi upphaf, atburðarrás og endi.  Krökkunum í 4.bekk finnst þetta mjög skemmtilegt.

Hluti nemenda í 4.bekk við hugtakakortin sín.

Að læra íslensku

Það er flókið að læra nýtt tungumál.  Sérstaklega þegar um er að ræða mál sem byggjast á allt öðru en málfræði eins og við erum vön.  Hér er dæmi um orðabók sem unnin var af nemanda í 7.bekk sem er að æfa sig í íslenskunni.

Hvernig verður framtíðin?

Það eina sem við vitum fyrir víst er að við vitum ekki hvernig framtíð bíður þeirra nemenda sem nú eru í grunnskólum landsins.  Atvinnulíf tekur stórstígum breytingum um þessar mundir.  Það sem eitt sinn taldist sígild og verðmæt þekking finnst nú á google á örfáum sekúndum.  Við teljum okkur vita að við séum að búa nemendur undir framtíð sem mun byggjast á nýtingu fjölbreyttrar tækni við flesta hluti.  Í vetur höfum við lagt mikla áherslu á að tileinka okkur vinnubrögð sem byggjast á að nýta upplýsingatækni við nám og miðlun þekkingar.  Tæknin gerir okkur líka auðveldara að leyfa ykkur að skoða sýnishorn af þeim frábæru verkefnum sem nemendur eru að vinna að í ýmsum námsgreinum.  Þeir nemendur sem eiga hér verkefni hafa góðfúslega veitt okkur leyfi til að setja þau hér inn.  Við hvetjum ykkur til að gefa ykkur tíma til að horfa á þessi myndbönd.  Hvort þetta verður framtíðin vitum við ekki en við viljum skila nemendum frá okkur vel færum um að miðla efni á fjölbreyttan hátt.  

Stærðfræði

Náttúrufræði

Danska

Samskipti milli nemenda

Undanfarin ár höfum við kannað hvernig nemendur upplifa samskipti við skólafélaga sína með tvennskonar hætti.  Á sex vikna fresti svarar ákveðið úrtak nemenda könnun á vegum Skólapúlsins.  Heildarniðurstöður fyrir skólann liggja því ekki fyrir fyrr en í lok hvers skólaárs.  Í febrúar gerum við okkar eigin kannanir og strax eftir að hver bekkur hefur svarað taka kennararnir niðurstöðurnar til umfjöllunar með nemendum. Megintilgangurinn er að afla upplýsinga um samskipti innan skólans og finna út hvort einhverjir nemendur upplifa einelti. En niðurstöður kannananna gefa okkur einnig tækifæri til að ræða samskipti í öllum bekkjum og þannig eru þær líka gott tæki til að vinna að bættum samskiptum.  Hér fylgir með bráðabirgðaniðurstaða úr samantekt af svörum 7., 8. og 9. bekkjar.  Það er ýmislegt í heildarmyndinni sem vekur athygli. Almennt virðast nemendur eiga í góðum samskiptum sín á milli og allir segjast eiga að minnsta kosti einn vin eða vinkonu í skólanum. samt sem áður segjast 8% nemenda á þessu stigi hafa upplifað einelti í skólanum og það er vandi sem við þurfum að vinna með saman.  Upplifun af einelti er meiri meðal yngri nemenda en eldri.  Ef aðeins eru skoðaðir 8. og 9. bekkur, fer hlutfall þeirra sem segjast hafa upplifað einelti niður í 3%. Einelti er aldrei ásættanlegt.  Það þarf samt sem áður alltaf að hafa í huga að nemendur eru ekki alltaf með skilgreiningar á einelti á hreinu.  Við heyrum gjarnan fullyrðingar eins og ,,þessi lagði mig í einelti í dag".  Þá þarf að útskýra að einelti er ekki eitthvað sem gerist einu sinni heldur er það endurtekið neikvætt atferli sem er hugsað til að meiða.  Það er mikilvægt að uppræta einelti og bæði þolendur og gerendur þurfa að fá aðstoð við að vinna úr slíkum samskiptum.  Því er mikilvægt að þið hikið ekki við að hafa samband við okkur ef ykkur grunar að barn sé lagt í einelti eða leggi aðra í einelti.  Það er alltaf hægt að hringja í okkur og eins er eyðublað á heimasíðu skólans sem er hugsað til að tilkynna grun um einelti. http://grisa.isafjordur.is/ymis_skjol/skra/152/.

Hér eru fyrstu niðurstöður frá nemendum í 7.,8. og 9. bekk.  Allar tölur eru prósentutölur. Nánar verður gerð grein fyrir niðurstöðum í sjálfsmatsskýrslu skólans sem kemur út í vor.

Heimanámsstefnan

Fyrir tveimur árum var mótuð heimanámsstefna við skólann okkar.  Við þá vinnu var leitað eftir sjónarmiðum nemenda, foreldra og starfsmanna.  Stefnan sem mótuð var á þeim grunni fól í sér nokkrar breytingar og því var ákveðið að hana skyldi endurskoða að tveimur árum liðnum.  Við munum því fljótlega senda ykkur spurningar sem við biðjum ykkur að svara vegna þeirrar endurskoðunar.  

Að lokum

Árshátíðin er núna með breyttu sniði.  Sýningar fyrir gesti eru  ekki á skólatíma.  Þetta krefst talsverðra skipulagsbreytinga í skólanum og í frístundastarfi nemenda.  Skóladagur margra nemenda verður mjög langur þessa daga og það er auðvitað viðbótarálag.  Við vonum samt að þessar breytingar mælist vel fyrir og verði til þess að auðvelda gestum að koma og sjá atriðin sem nemendur og starfsfólk hefur lagt mikla vinnu í.

Eins og sjá má var mikið að gera hjá förðunarteyminu

Skóli hefst að loknu páskafríi þriðjudaginn 7. apríl samkvæmt stundatöflu.