Fréttir af starfi Grunnskólans á Ísafirði í apríl 2016.

Árshátíð

Við lukum dagskránni fyrir páskafrí með árshátíðarsýningum.  Við verðum alltaf jafn stolt af krökkunum okkar þegar þessum sýningum er lokið.  Allir taka þátt með einhverju móti því það eru ótal verk sem þarf að vinna kringum sýningar af þessu tagi.  Það er kraftaverki líkast að sjá alla nemendur leggja sitt af mörkum til að atriðin geti gengið upp.  Í þessu ferli læra nemendur samábyrgð og að treysta hver öðrum, til viðbótar við allt sem þeir læra í atriðunum sjálfum.  Í ár fengum við meira að segja smá klippu í fréttatíma sjónvarps sem gladdi okkur mjög.  Hér má sjá smá brot úr atriðum 1.,5. og 10.bekkjar.

Hjólreiðar

Nú er vorið að koma og margir nemendur farnir að koma á hjóli í skólann.  Við hvetjum ykkur til að fylgjast vel með veðri og senda börnin ekki á hjóli í skólann ef það er hálka eða snjór á götunum.  Eins er rétt að benda á að ung börn þurfa aðstoð þegar þau eru á hjóli í umferðinni. Það er mikilvægt að gæta að því að öryggisbúnaður barnanna sé í lagi og að allir séu alltaf með reiðhjólahjálma.   

Á þessari síðu er hægt að skoða fræðslumyndbönd um hjólreiðar.  Og hér er bæklingur um öryggisatriði sem hafa þarf í huga við notkun hjólreiðahjálma. Á vefnum www.umferd.is er svæði ætlað foreldrum og forráðamönnum vegna hjólreiða í umferðinni.  

Athygli er vakin á að:

-samkvæmt 40. gr. umferðarlaga mega börn yngri en 7 ára ekki vera hjólandi í umferðinni nema í fylgd með 15 ára og eldri.

-eigi má reiða farþega á reiðhjóli eða rafvespu. Þó má vanur reiðhjólamaður sem náð hefur 15 ára aldri reiða barn yngra en 7 ára en ber þó að nota viðeigandi öryggissæti og búnað.

-börnum yngri en 15 ára er skylt að nota reiðhjólahjálma og viðeigandi hlífðarbúnað þegar þau ferðast um á reiðhjólum, rafvespum, hjólabrettum og línuskautum.  Eina vitið er að allir noti hjálm.

Erasmus

GÍ er þátttakandi í verkefni á vegum Erasmus+ ásamt skólum frá Þýskalandi, Kýpur, Portúgal, Króatíu og Lettlandi. Verkefnið snýst um að skoða námsframmistöðu ólíkra nemendahópa. Skólarnir í Þýskalandi, Portúgal, Króatíu og Kýpur skoða það með tilliti til flóttamanna, Lettarnir skoða nemendur frá Rómafólki og hér í GÍ eru það tvítyngdir nemendur.

Í GÍ eru núna 326 nemendur og af þeim eru 57 tvítyngdir sem eru 17% nemenda. Hlutfallið innan einstakra bekkja er mjög mismunandi eða allt frá 4% og upp í 40%. Það veitti okkur mikla ánægju að sjá að námsárangur þessara nemenda er ekki síðri en hjá öðrum.

Halla Magnadóttir og Helga Björt Möller

Hér er hópurinn í heimsókn hjá borgarstjóranum í

Lesskilningur

Menntamálastofnun var að senda skólum landsins niðurstöður úr sérstöku mati á lesskilningsþætti í samræmdum prófum hjá 10. bekk.  Niðurstaðan er miðuð við meðaltal síðustu fjögurra ára.  Í þessum þætti er það mat stofnunarinnar að 78% nemenda í 10.bekk hjá okkur geti lesið sér til gagns sem er einu prósenti hærra en meðaltal nemenda á landinu.

Jafnréttisþing

Þann 18.febrúar síðastliðinn héldum við málþing um jafnrétti.  Þátttakendur voru nemendur í 6.-10.bekk.  Þingið hófst með innleggi frá Bergljótu Þrastardóttur frá jafnréttitstofu þar sem hún fjallaði um mikilvægi jafnréttis í margskonar samhengi.  Spurningarnar sem lagðar voru upp með fyrir nemendur snerust um hvernig jafnrétti gæti komið öllum til góða og hvað hægt væri að gera til að auka líkur á kynjajafnrétti í skólanum, á heimilum og í íþróttum.  Nemendur tóku virkan þátt og svör þeirra bera þess merki að þeir eru meðvitaðir um mikilvægi jafnréttis. Við hvetjum ykkur til að lesa þessi svör nemenda sem eru gott merki um hversu skynsamir þeir eru.  Rétt er að taka fram að orðalagið er frá nemendum.

Hvað græða stelpur á jafnrétti?

 • - Fleiri vinnumöguleika
 • - Þær geta unnið hvar sem er án þess að vera gagnrýndar
 • - Þær mega vera þær sjálfar
 • - Fá betur borgað fyrir vinnuna sína
 • - Fá fleiri tækifæri í lífinu
 • - Meira val um starfsferil
 • - Græða aukið frelsi sem persónur í samfélaginu vegna þess að það niðurlægir þær enginn

Hvað græða strákar á jafnrétti?

 • - Allir fá jöfn tækifæri
 • - Engir fordómar
 • - Þeir geta unnið hvar sem er án þess að vera gagnrýndir
 • - Að konur og karlar geta unnið saman, án gagnrýni
 • - Þeir mega ganga í bleikum fötum/bleika tösku
 • - Fá að sýna sína svokölluðu ókarlmannlegu hlið/fá að gera hluti sem stelpur eru að gera frekar en karlar
 • - Fá rétt á því sem þeir hafa/eiga jafn mikið og konur
 • - Þeir geta æft stelpuíþróttir
 • - Vera hræddir við kóngulær
 • - Fá tækifæri til að vera meira með börnunum sínum
 • - Þurfa ekki alltaf að vera ,,hetjan“ í öllu
 • - Vera ekki niðurlægðir fyrir ákvarðanir sínar ef þeir fylgja ekki spor staðalímyndanna eins og að vinna sem hjúkkur án þess að verða niðurlægðir

Hvað geta nemendur gert til að auka jafnrétti í skólanum?

 • - Rökrætt hluti um jafnrétti
 • - Láta vita ef maður upplifir ójafnrétti
 • - Ekki dæma
 • - Það þarf ekki að gera grín að t.d. fólki frá öðrum löndum
 • - Þeir geta komið eins fram við alla, með opnu og fjölbreyttu hugarfari
 • - Gera ekki grín að þeim sem skera sig úr sínum svokallað venjulega hóp
 • - Hætt að hugsa um stráka- og stelpudót
 • - Ekki sýna fordóma/gera grín að þeim sem fara út fyrir staðalmyndarammann
 • - Standa með sjálfum sér
 • - Koma skoðunum sínum á framfæri
 • - Biðja kennarana um að fræða meira um þetta
 • - Vinna meiri hópavinnu með blönduðum hópi
 • - Ákveðið að það sé engin sérstök hegðun sem tilheyrir hvoru kyni
 • - Fá fleiri karla og opna umræðuna um jafnrétti

Hvað getur starfsfólkið gert til að auka jafnrétti í skólanum?

 • - Ekki skipta í hópa í sundi, í stelpu/strákahópa
 • - Skipta jafnt í hópa
 • - Hætta að lifa í fortíðinni og sætta sig við að heimurinn er skárri og fordómar eru næstum horfnir
 • - Sleppt kynjaskiptingu
 • - Kynnt jafnrétti fyrir nemendum
 • - Ekki kynjaskipt hlutverk
 • - Það getur gefið öllum jafna/svipaða möguleika
 • - Trúað strákum þegar þeir kvarta undan stelpum
 • - Frætt nemendur um jafnrétti og haldið fundi og þing og gert verkefni um það
 • - Ekki búa til staðalímyndir hjá krökkunum
 • - Ráða karla og konur í sömu störf
 • - Vakið áhuga á störfum

Hvað getið þið gert til að auka jafnrétti á heimilum?

 • - Allir gera jafn mikið, komið jafnt fram við alla
 • - Allir þrífa og taka til, hjálpast að við húsverkin
 • - Standa upp fyrir sjálfum sér
 • - Að geta talað við foreldra sína
 • - Talað við foreldra og systkini í ró og næði
 • - Feður geta hjálpað meira með störf mæðra og öfugt
 • - Það er hægt að auka fjölbreytileika í vinnuverkum heima við
 • - Ef foreldrar eru skilin, þá reyna að skipta jafnt að búa hjá þeim
 • - Fræða fjölskyldu um jafnrétti á heimilinu
 • - Ekki gera gys að hlutum annarra
 • - Talað um jafnrétti
 • - Hjálpað til á heimilinu og rætt saman um verk á heimilinu
 • - Látið systkini ykkar gera sömu hluti og þið
 • - Karlar og börn eiga líka að taka þátt í heimilisstörfum

Hvað geta foreldrar gert til að auka jafnrétti á heimilum?

 • - Láta alla gera jafn mikið
 • - Ekki skipta verkum eftir kyni
 • - Hlusta á skoðanir barnanna
 • - Skipta húsverkum jafnt á milli
 • - Stelpum er oft hleypt inn í eldhús og kennt að elda á meðan strákum er kennt að skipta um dekk o.s.frv. Við gætum komið í veg fyrir þetta og kennt fólki það sem það hefur áhuga á
 • - Hvetja krakka í hvaða íþrótt sem er, hvort sem um stelpu eða strák er að ræða
 • - Frætt börn um jafnrétti
 • - Láta bæði mömmu og pabba hjálpa með uppeldi
 • - Gefa stelpum líka strákadót og öfugt
 • - Hjálpast að og vera góðar fyrirmyndir
 • - Foreldrar geta kennt börnunum að kyn skiptir ekki máli
 • - Vera góð fyrirmynd fyrir börnin með því að ræða stöðugt um verkaskiptingu á heimilinu
 • - Ekkert heimilisofbeldi

Hvað getið þið gert til að auka jafnrétti í íþróttum?

 • - Látið vita ef við upplifum ójafnréttlæti
 • - Segja okkar skoðanir
 • - Hvetja bæði karla- og kvennalið
 • - Ekki monta sig þegar maður vinnur hitt kynið
 • - Hætt að láta stráka og stelpur keppa á móti hvert öðru
 • - Að gefa öllum jöfn tækifæri
 • - Fylgst betur með, t.d. íþróttaleikjum kvenna
 • - Haft jöfn laun hjá báðum kynjum
 • - Leyfa stelpum og strákum að æfa það sem þau vilja
 • - Fjalla meira um konur í íþróttum
 • - Ekki hafa kynjaskipt í liðum
 • - Auglýsa meira um konur í íþróttum
 • - Ekki dæma þótt strákar vilji fara í íþróttir sem eru ,,stelpulegar“ og öfugt
 • - Beðið um fyrirlestra
 • - Hætta að skipta í stráka og stelpu hópa
 • - Við myndum vilja meiri aðsókn á íþróttaviðburði kvenna sem mundi þá hækka laun þeirra líka
 • - Að hafa fjölbreyttar íþróttir svo að allir finni eitthvað við sitt hæfi til að vera góðir í og láta bæði kynin æfa saman
 • - Sýna öllum íþróttum virðingu

Hvað geta fullorðnir gert til að auka jafnrétti í íþróttum?

 • - Skipt jafnt í lið
 • - Hlusta á skoðanir allra
 • - Að allir tali við börnin sín um jafnrétti í íþróttum
 • - Hrósað báðum kynjum og leyft þeim að vera í íþróttum sem þau vilja
 • - Hafa jafn stóra bikara. Eins og staðan er núna fá strákar stærri bikar og betri verðlaun en stelpur
 • - Fjallað meira um kvenkyns íþróttir. Það eru nánast bara karlar sem koma fram í íþróttafréttum
 • - Styrkt konur jafn mikið og þeir styrkja karla
 • - Að verðlaun séu jöfn hjá konum og körlum
 • - Leyfa öllum að taka þátt, sama hvaða kynþátt, kynhneigð osfrv.
 • - Skipta auglýsingum og fjármagni jafnt milli stelpna og stráka
 • - Tryggja jafna aðstöðu
 • - Ekki sundra kynjum í leikfimi
 • - Halda fund með krökkunum
 • - Leyfa stelpum að vera með á sömu tímum á æfingum
 • - Þótt að íþróttir séu um að gera upp á milli eftir líkamlegri getu, á ekki að gera upp á milli kynja eftir líkamlegri getu eins og með því að gefa konum léttari markmið
 • - Við viljum að foreldrar fylgist vel með krökkunum og séu duglegir að veita þeim stuðning og hvetja þá áfram

Að lokum

Verkefni sem krefjast mikillar útiveru nemenda eru oftast unnin á haustin og vorin og þannig verður það líka núna.  Við viljum hjálpa til  við að byggja upp samfélagslega ábyrgð hjá nemendum og tökum því þátt í margskonar samfélagsverkefnum eins og til dæmis vorverkadeginum.  Hjá yngri nemendum koma upplýsingar um svona sérverkefni í vikuáætlunum og hjá þeim eldri í tölvupóstum og á mentor.  Við hvetjum ykkur til að fylgjast vel með þessu og passa að krakkarnir komi klæddir eftir aðstæðum hverju sinni.