Fréttir úr Grunnskólanum á Ísafirði í ársbyrjun 2015.

Nýja árið leggst vel í okkur í Grunnskólanum.  Nemendum hefur fjölgað örlítið frá því í haust og því tökum við auðvitað fagnandi.  Það er aldrei lognmolla í skólastarfinu og hvert nýbreytniverkefnið tekur við af öðru.  Við erum lögð af stað í umfangsmikið þróunarverkefni sem kallað er Stillum saman strengi.   Í því felst meðal annars að við leggjum fyrir fleiri skimanapróf en áður og vinnum markvissar með niðurstöðurnar.  Allir kennarar skólans eru líka að vinna í að bæta kunnáttu sína til að efla lesskilning nemenda, það gerum við með leiðsögn frá Háskólanum á Akureyri.  Við erum enn að vinna að aukinni tæknifærni og nú eru fleiri árgangar að fá spjaldtölvur til afnota í skólanum.  Við stígum samt sem áður varlega til jarðar í þessu því það er mikilvægt að láta tæknina þjóna verkefnunum og gæta þess að hún verði til að auka fjölbreytni en ekki bara til að gera allt eins og áður bara með öðrum verkfærum.  Kynningarfundur fyrir foreldra nemenda í 8.-10.bekk var haldinn í síðustu viku og fundur fyrir foreldra yngri nemenda verður þriðjudaginn 3.febrúar kl.18-19.

Frá kynningu fyrir foreldra nemenda á unglingastigi á Stillum saman strengi, netsamskiptum og spjaldtölvuvæðingu.

Lýðræði í námskrá

Í aðalnámskrá grunnskóla er gert ráð fyrir að börn og ungmenni læri til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræði.  Að kenna lýðræðisleg vinnubrögð og hugsun sem felur í sér lýðræðislega virkni er flókið mál og engin ein leið til sem skólar geta gengið að við það verkefni.  Við erum með formlegt lýðræðisverkefni sem beinist að þátttöku nemenda og gert er ráð fyrir að taki þrjú ár í vinnslu.  Á síðasta skólaári héldum við nemendaþing þar sem nemendur í 6.-10.bekk komu saman og skilgreindu áhrifaþætti í skólastarfinu og hvað hver og einn gæti gert til að skólabragurinn yrði eins og þeir sjá hann bestan.  Vinna með niðurstöðurnar tók allan síðasta vetur.  Að lokum setti nemendaráð skólans saman þrjár setningar sem lýsa þeim skólabrag sem nemendur vilja skapa.  Setningarnar snúast um einelti, vinnufrið og ábyrgð.  Nú í vetur eru nemendur í 5.-9. bekk að vinna að því að skilgreina hvað við sjáum, heyrum og finnum í skóla sem vinnur vel með þessa þrjá þætti.  Þessar skilgreiningar verða svo settar fram sem matskvarði.  Við lok næsta skólaárs vonumst við svo til að geta beðið nemendur um að meta hvernig okkur hefur gengið að ná settum markmiðum.  Þetta er bæði flókin og tímafrek vinna en um leið skemmtileg og vonandi læra nemendur í gegnum hana að komast að samkomulagi og að taka ákvarðanir sem koma sér vel fyrir sem flesta.

Sýnishorn af vinnu 8.bekkjar við væntanlegt matsblað til að meta hvernig gengur að móta þann skólabrag sem nemendur vilja sjá í skólanum.

Annað sem er á dagskrá er að virkja nemendur og nemendaráð skólans betur, til dæmis við ákvarðanatöku um málefni sem varða þemadaga, árshátíð, námsefni, skóladagatal og fleira.  Hér er stutt viðtal við formann og varaformann nemendaráðs, Pétur Erni og Heklu, um hvernig þau sjá hlutverk sitt og hvað hægt væri að gera til að auka áhrif nemenda á skipulag skólastarfsins.

Óskilamunir

Í skólanum safnast alltaf upp talsvert magn af fatnaði og öðru sem nemendur gleyma.  Skólaliðar reyna að koma öllu til skila sem er merkt en meira að segja það gengur ekki alltaf upp.  Við hvetjum foreldra til að koma við og skoða og athuga hvort hér, eða í sundhöllinni, er eitthvað sem þeir sakna.  

Öll þessi barnagleraugu liggja í skúffunni hjá ritara.

Æfingin skapar meistarann

Eitt af því mikilvægasta sem við getum kennt krökkunum okkar er að kenna þeim að lesa og afla sér þannig upplýsinga á eigin spýtur.  Það er með lesturinn eins og allt annað að hann krefst mikillar æfingar ef góð leikni á að nást.  Það að lesa heima á hverjum degi í 15 mínútur dugar yfirleitt til góðra framfara og hvetjum við ykkur til að taka heimalesturinn föstum tökum, líka þegar krakkarnir ykkar eru farnir að lesa vel því ef hætt er að lesa má gera ráð fyrir afturför.  Sum börn virðast ná lestri tiltölulega fyrirhafnarlítið meðan önnur strita við en sjá minni árangur.  Ef börn eiga í einbeitingarerfiðleikum eða eru með dyslexíu er oft mjög erfitt að koma þeim yfir fyrsta hjallann þannig að þau geti farið að lesa sér til gagns og ánægju.  Það er vel skiljanlegt að leiði og uppgjöf komi í börn sem ströggla mánuð eftir mánuð og sjá kannski frekar litlar framfarir.  Þá er það okkar og ykkar að hjálpa þeim og reyna að gera æfingarnar fjölbreyttari því það má ekki gefast upp þó að verkið sé erfitt.  Margir bekkir eru með lestrarbingó þar sem lesið er með óhefðbundum hætti á hverjum degi.  Krökkunum finnst það bæði spennandi og skemmtilegt og þá hugmynd má að sjálfsögðu útfæra heima líka.  Hér má sjá nemendur 6.bekkjar úti á Silfurtorgi að lesa.

Þorrablót

Áratuga hefð er fyrir því að nemendum 10.bekkjar sé boðið á þorrablót í skólanum.  Blótið er samstarfsverkefni foreldra og skóla og er undantekningalaust hin besta skemmtun. Krakkarnir bjóða foreldrum, ömmum og öfum og eldri systkinum á þorrablótið en sjálfir eru þeir yngstu gestirnir á skemmtuninni.  Foreldrar og starfsfólk æfa upp skemmtidagskrá og á milli atriða er sungið af miklum móð.  Vikurnar fyrir blótið æfa nemendur sig í gömlu dönsunum undir stjórn Evu danskennara og á ballinu sjálfu bjóða þeir svo gestum sínum upp í dans.  Æfingarnar ganga yfirleitt mjög vel og við erum viss um að það er leitun að jafn almennri danskunnáttu og hjá nemendum Grunnskólans á Ísafirði.  Hér er smá sýnishorn.

Sólarkaffi

Þegar hægt er að sjá til sólar hér á Ísafirði er hefð fyrir því að vinabekkir hittist í sólarkaffi í skólanum.  Þá koma krakkarnir með pönnukökur og eiga svo góðar stundir saman, ýmist við margskonar skipulagða skemmtidagskrá  eða spil og leiki. Það er ómetanlegt fyrir yngri nemendur að vita að unglingarnir eru vinir þeirra og þeir eldri kunna yfirleitt vel að meta aðdáunina sem litlu krakkarnir sýna þeim.  Svo er líka svakalega gaman þegar stóru krakkarnir nenna að leika, segja þeir sem eru sex ára.  

Að lokum

Foreldraviðtöl verða í skólanum miðvikudaginn 11.febrúar.  Eins og í haust verður opnað fyrir ykkar eigin tímaskráningar í mentor í vikunni á undan.  Við hvetjum ykkur til að undirbúa ykkur vel fyrir viðtölin svo þau megi verða til eins mikils gagns og hægt er fyrir nemendur.  Okkar sameiginlega hlutverk er að búa börnunum eins góð skilyrði til þroska og okkur er unnt og það gengur best með góðri samvinnu um það sem máli skiptir fyrir þau.