Fyrri Heimstyrjöldin

1914-1918

Fyrri heimsstyrjöldin (sem nefnt var heimsstríðið fyrir seinni heimsstyrjöldina) var mannskætt stríð sem geysaði í Evrópu í fjögur ár. Stríðið hefur verið nefnt „stríðið mikla“ og „stríðið sem enda átti öll stríð“. Sá atburður sem miðað er við að marki upphaf stríðsins var morðið á Frans Ferdinand erkihertoga og ríkisarfa Austurríkis í Sarajevó þann 28. júní 1914. Átök hófust í ágúst 1914 og breiddust hratt út. Þegar upp var staðið lágu um tíu milljónir manna í valnum, um tuttugu milljónir höfðu særst og ótal manns misst heimili sín og lifibrauð. Stríðinu lauk með uppgjöf Þjóðverja 11. nóvember 1918. Að stríðinu loknu funduðu fyrrum fjandmenn í Versölum í Frakklandi hvar Versalasamningurinn var gerður.

Sigurvegarar í stríðinu voru bandamenn undir forystu Frakka en auk þeirra voru Bretar og Rússar (til 1917) og síðar einnig Ítalir og Bandaríkjamenn. Öxulveldin voru Austurríki-Ungverjaland, Þýskaland, Búlgaría og Ottómanveldið.
Flestar orrustur í fyrri heimsstyrjöldinni voru háðar á vesturvígstöðvunum, lengst af í formi skotgrafahernaðar en á milli andstæðra skotgrafa var svokallað „einskis manns land“. Skotgrafirnar náðu allt frá Norðursjó að landamærum Sviss. Á austurvígstöðvunum komu víðáttur Austur-Evrópu og takmarkaðar járnbrautir í veg fyrir langvarandi skotgrafahernað og ollu meiri hreyfanleika víglínanna. Einnig voru háðar orrustur á hafi og neðansjávar með kafbátahernaði og í fyrsta sinn í lofti. Meira en níu milljónir hermanna létu lífið í orrustum og milljónir óbreyttra borgara fórust.
Stríðið olli því að tvö ríki liðuðust í sundur og tvö önnur keisaradæmi liðu undir lok: Austurríki-Ungverjaland og Ottóman veldið liðuðust í sundur og Þýska keisaradæmið og Rússneska keisaradæmið liðu undir lok. Þýskaland glataði öllu veldi sínu utan Evrópu og ný ríki urðu til, svo sem Tékkóslóvakía, Eistland, Lettland, Litháen, Finnland, Pólland og Júgóslavía.

Comment Stream