Fréttir af starfi Grunnskólans á Ísafirði í árslok 2015.

Í myrkrinu

Nú þegar dimmt er úti, bæði þegar nemendur koma í skólann og þegar þeir fara heim, er mikilvægt að foreldrar hugi að öryggi þeirra á leiðinni milli skóla og heimilis. Munum eftir að nota endurskinsmerkin og brýna fyrir krökkunum að fara varlega.  Ljóslaus hjól eru best geymd heima á þessum tíma og meðan snjór og hálka eru á götunum teljum við ekki öruggt að börn komi á hjólum í skólann. Nemendur fjórða bekkjar hafa verið að læra um umferðarreglur síðustu daga og enduðu á að fara í heimsókn á lögreglustöðina.

Nemendur fjórða bekkjar fengu að skoða fangaklefa.

Nemendur í fornámi ökunáms hafa líka verið að læra um umferðaröryggi og þeir bjuggu til myndbönd sem sýnd verða í yngri bekkjum.  Hér er eitt dæmi.

Að ýmsu að hyggja

Þrátt fyrir að flestir séu nú komnir í jólahugleiðingar má ekki gleyma verkunum sem þarf að vinna á hverjum degi.  Við höfum ekki náð öllum markmiðum okkar varðandi námsárangur nemenda eins og hann er mældur í samræmdum prófum.  Því höfum við nú breytt ýmsu í vinnulagi í skólanum til að reyna að gera betur.  Reglulegt heimanám hefur verið tekið upp aftur í sumum árgöngum og heimanámsstefna skólans verður endurskoðuð á nýju ári, bætt hefur verið inn auka lestri í skólanum og settur hefur verið inn aukahópur í stærðfræði í 10.bekk.  Einnig verður nemendum í 10.bekk boðið á sérstakt námskeið í íslensku og stærðfræði þar sem grunnatriðin verða rifjuð upp.  Við fylgjumst einnig betur með framförum í lestri og stærðfræði í öllum árgöngum og getum því gripið fyrr inn í ef ekki gengur sem skyldi.  Samstarf við ykkur foreldra er algjört lykilatriði í þessu eins og öðru.  Nú í jólabókavertíðinni er gott tækifæri til að hvetja krakkana til lesturs, 15 mínútur á dag geta í sumum tilvikum gert kraftaverk og hjálpa örugglega öllum.  

Jóladagskrá í skólanum

Unandfarin ár hefur verið unnið að því í skólanum að gera jólavinnuna lágstemmdari.  Við höldum okkar venjubundnu dagskrá að mestu leyti þar sem það skapar mesta öryggið fyrir nemendur.  Það er þó verið að föndra smá jólaskraut núna þessa síðustu viku og jólalögin eru æfð bæði í bekkjum og í samsöngnum.  Piparkökuhúsin sem nemendur í heimilisfræðivali gera eru á sínum stað og hurðir að kennslustofum hafa víða verið skreyttar.  8.bekkur hefur verið að vinna verkefni um hvað það getur kostað að halda jól. Nemendur fengu í hendur auglýsingabæklinga og áttu að reikna út frá þeim hvað jólahald gætir kostað.  Okkur hefur verið boðið á margskonar tónleika og flestir bekkir farið að sjá jólasýninguna í safnahúsinu.

Hér má sjá hurðina hjá þriðja bekk

Óvæntur atburður

Með póstinum í dag barst bréf stílað á tvo nemendur í 5.bekk.  Það gerist afar sjaldan að bréf berist til nemenda í skólanum svo við vorum auðvitað forvitin.  Þegar nemendurnir opnuðu bréfið kom í ljós að þetta var svarbréf frá konu sem hafði fundið flöskuskeyti sem þær sendu haustið 2014.  Flaskan fannst eftir að stormur hafði geisað við Írlandsströnd þann 5.desember 2015 og finnandinn var svo vinsamlegur að senda stúlkunum svarbréf.

Kátar stelpur í 5.bekk með svarbréfið sitt og gullpeninga sem fylgdu með.

Að lokum

Um leið og við óskum ykkur gleðilegra jóla sendum við ykkur smá sýnishorn af litlu jólunum hjá okkur.  Það er alltaf hátíðlegt þegar nemendur mæta prúðbúnir og við erum svo heppin að allir sýna sínar bestu hliðar á jólaböllunum.  Skóli hefst svo samkvæmt stundatöflu þriðjudaginn 5.janúar.

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði óskar nemendum og forráðamönnum þeirra gleðilegra jóla og þakkar gott samstarf á yfirstandandi skólaári.