Fréttir af starfi Grunnskólans á Ísafirði í maíbyrjun 2016

Eitt af þeim verkum sem við erum að vinna að allt skólaárið er að hjálpa nemendum að byggja upp góða samskiptafærni.  Það er ekki eins einfalt og að kenna margföldunartöfluna og ekki heldur eins auðvelt að mæla hvort nemendur hafa náð þeirri færni sem við óskum eftir.  Þessi vinna er yfirleitt skapandi og skemmtileg og hér má sjá dæmi um niðurstöðu af bekkjasáttmála frá einum bekk.  Þessi vinna tók nokkrar kennslustundir og þó að sýnileg verk eftir hana séu ekki mikil er ferlið við að komast að þessu samkomulagi hjálplegt við að kenna nemendum að góð samskipti eru mikilvæg.

Undirritaður bekkjarsáttmáli frá 2.ÁH

Tilraunir

Nemendur þriðja bekkjar gerðu fjölbreyttar tilraunir að eigin vali í apríl.  Þær tókust ekki allar eins og til var ætlast og nemendur lærðu af verkum sínum hvað orðið ,,tilraun" þýðir.  Krakkarnir unnu í hópum og tóku tilraunirnar sínar upp.  Foreldrum var svo boðið á sýningu þar sem myndbönd krakkanna voru sýnd fyrir fullu húsi.  

Frá tilraunasýningu 3. bekkjar.

Litla upplestrarhátíðin

Í ár erum við í fyrsta sinn formlegir þátttakendur í ,,Litlu upplestrarhátíðinni" í 4.bekk.  Hátíðin er systurverkefni ,,Stóru upplestrarkeppninnar" sem haldin er í 7.bekk og er upprunnin í Hafnarfirði líkt og sú stóra. Inntak beggja verkefnanna felst í að vekja áhuga nemenda á lestri og æfa fallegan upplestur.  Nemendum 3.bekkjar ásamt foreldrum nemenda í 4.bekk var boðið á lokahátíðina.  Hér má sjá myndband frá lokaatriðinu þar sem allir nemendur lesa saman í talkór.

Viðvera nemenda í skóla

Við höfum tekið saman meðaltalstölur fyrir hvern árgang vegna leyfa og veikinda.  Hvort forföll nemenda hér eru meiri en annarsstaðar vitum við ekki en athygli vekur hversu veikindi og leyfi nemenda aukast þegar þeir koma á unglingastig. Þessi samantekt sýnir fjölda stunda sem nemendur eru skráðir fjarverandi.  Nemendur í 1.-4.bekk eiga að vera 30 stundir á viku í skólanum, nemendur í 5.- 7. 35 stundir og í 8. - 10.bekk á vikuleg viðvera að vera 37 stundir.  Hluti af leyfistímum eru ferðir sem nemendur fara í á vegum íþróttafélaga en þær ferðir skýra ekki allt.  Einnig er mikið um veikindi hjá nemendum í 9. og 10.bekk eins og meðfylgjandi myndir sýna.  

Meðaltal stunda sem nemendur hafa verið skráðir veikir á skólaárinu.
Meðaltal stunda sem nemendur hafa verið skráðir í leyfi á skólaárinu.

Hér er búið að leggja saman fjarveru vegna veikinda og leyfa og reikna út hversu hátt hlutfall af árlegum skólatíma nemendur hvers árgangs hafa að jafnaði verið fjarverandi.

Þessar tölur sýna hversu mörg prósent skóladaga nemendur tiltekinna árganga hafa verið frá að jafnaði.  Að meðaltali eru það tæplega 7 dagar sem allir nemendur skólans hafa verið frá en í 10.bekk eru það rúmlega 11 dagar sem nemendur hafa verið frá ef fjarverustundum er deilt jafnt niður á alla nemendur.  Því fer þó fjarri að nemendur séu allir jafn mikið frá, en auðvelt er að leiða líkum að því að mikil fjarvera hafi slæm áhrif bæði á árangur í námi og félagslega stöðu nemenda.

Að lokum

Við erum með nokkur hefðbundin verkefni í maímánuði svo sem vorverkadaginn sem við skipuleggjum í samráði  við umhverfisdeild Ísafjarðarbæjar, ýmsar heimsóknir á söfn, í sveit og í fyrirtæki.  Við hvetjum ykkur til að fylgjast vel með á vikuáætlunum og í tölvupóstum og senda nemendur klædda miðað við veður og aðstæður.  Skólaslit verða þann 3.júní, nemendur 1.bekkjar mæta í viðtal til umsjónarkennara, nemendur 2.-7.bekkjar hitta sína umsjónarkennara kl.10 og fá afhentan vitnisburð.  Nemendur 8.-10.bekkjar fá sinn vitnisburð afhentan í kirkjunni kl.20:00.  Þar fer jafnframt fram útskrift 10.bekkjar við hátíðlega athöfn.