Fréttabréf Faghóps leikskólasérkennara

19. árg. 2. tbl.  Maí 2015                      Ábyrgðarmaður Kristín Sigurðardóttir

Fréttir frá aðalfundi

Aðalfundur Faghópsins var haldinn þann 6. maí s.l. í Kópavogi.  Formaður Faghópsins Kristín Sigurðardóttir fór yfir skýrslu stjórnar. Hún rakti helstu verkefni Faghópsins á s.l. starfsári sem var afar gott og greinilegt að starf Fahópsins er alltaf að eflast. Þá kynnti Guðrún Jóhanna gjaldkeri reikninga síðasta starfsárs. Faghópurinn er vel rekinn og gjaldkerinn heldur greinilega vel utanum fjárreiður hópsins. Guðrún Jóhanna lagði til sama árgjald 2000 kr. og var það samþykkt.

Þessu næst fóru fram kosningar í embætti. Fyrst var kosinn nýr formaður Faghópsins, Aðalheiður Una Narfadóttir og var hún sjálfkjörin. Kristín formaður og Ásdís Emilía ritari ákváðu að ganga úr stjórn að þessu sinni og í þeirra stað voru kjörnar þær Margrét Ágústa Hallsdóttir og Hanna Halldóra Leifsdóttir. Þær Bryndís, Katrín og Eva sem verið hafa varamenn í stjórn hafa ákveðið að hætta og í þeirra stað voru sjálfkjörnar þær Inga Rut Ólafsdóttir og Margét Björk Björgvinsdóttir. Fráfarandi stjórnarmönnum voru þökkuð góð störf í þágu Faghópsins og nýjum óskað velfarnaðar í starfi. Skoðunarmenn reikninga verða þeir sömu og áður.

Til fundarins hafði borist ein tillaga um breytingu á 3. grein í starfsreglum Faghópsins og var hún tekin fyrir og rædd. Gerðar voru smávægilegar breytingar á tillögunni og hún síðan samþykkt, breytingarnar eru feitletraðar eins og hér segir:

›3. gr.
Aðilar að Faghópnum geta orðið allir leikskólakennarar sem lokið hafa námi í sérkennslufræðum og greiða gjöld til Faghópsins. Sækja þarf um aðild til stjórnar Faghópsins á heimasíðu Faghópsins. Jafnframt er farið fram á að viðkomandi sendi inn afrit af leyfisbréfi. Uppfylli leikskólakennari ekki inngönguskilyrðin hér á undan, en starfar sem sérkennslustjóri í leikskóla, sérkennsluráðgjafi sveitarfélags eða ríkisstofnunnar getur hann sótt um tímabundna undanþágu til stjórnar Faghópsins, sem hefur úrskurðarvald í þeim málum.

Eftir hefðbundin aðalfundarstörf flutti Margrét Birna Þórarinsdóttir sálfræðingur erindi um kjörþögli. Erindi hennar var afar áhugavert og fræðandi. Hægt er að sjá skjákynningu hennar hér.

Hér má sjá myndir frá fundinum og hér fyrir neðan er mynd af nýja formanni Faghópsins Aðalheiði Unu.

Námskeiðsdagur 2015

Námskeiðsdagur Faghópsins var haldinn 17.-18. apríl sl. og tókst mjög vel. Námskeiðsdagurinn er haldinn ár hvert til þess að efla þekkingu og samstarf innan faghópsins, en félagsmenn koma að þjónustu við börn með frávik í þroska og aðstandendur þeirra. Að þessu sinni var Námskeiðsdagurinn haldinn á Egilsstöðum.

Það var vaskur hópur sem var mættur á Reykjavíkurflugvöll kl. 7.00 að morgni, tilbúinn í ævintýri dagsins. Ævintýrin byrjuðu strax á Egilsstöðum þegar tvær töskur fóru til Akureyrar, en þær voru komnar upp á herbergi seinna um daginn. Byrjað var í bakaríinu í Fellabæ þar var líka einhver misskilningur þau héldu að við væru að sækja brauðið en aldeilis ekki við vorum komnar til þess að fá okkur morgunhressingu. Með góðri samvinna og jákvæðu hugarfari gekk þetta upp.

Fyrri heimsókn dagsins var í Handverks og hússtjórnarskólann á Hallormsstað. Þar tók Bryndís Fiona skólameistari á móti okkur og sýndi okkur þennan sögulega skóla. Bryndís kynnt fyrir okkur námstilboð sem stendur nemendum til boða og einnig hvernig er farið yfir umsóknir. Við gengum á milli herbergja og fengum að ræða við nemendur í kennslu. Það var verið að sauma, prjóna, brodera og vefa. Síðan var hópur í eldhúsinu að undirbúa hádegismat fyrir okkur. Borðsalurinn var dúkaður upp og fallega skreyttur. Dýrinds matur var framreiddur og svo fengum við ananas fromage eins og hann gerist bestur frammi í forstofu. Á meðan við vorum þar kom skógarvörður og fræddi okkur um afurðir sem eru nýttar í framleiðsu á allskonar sultum og hunangi.

Eftir hádegi heimsóttum við leikskólann Tjarnaskóg sem er átta deilda leikskóli sem starfar á tveimur stöðum á Egilsstöðum, Skógarlandi við Skógarlönd 5 og Tjarnarlandi við Tjarnarlönd. Borghildur Sigurðardóttir sérkennslustjóri kynnt fyrir okkur þjónustu við fötluð börn á Fljótdalshéraði . Eftir kynninguna fengum við dýrindis kaffiveitingar sem runnu ljúflega niður.

Eftir það var frjáls tími sem félagskonur nýttu til þess að skoða sig um á Egilsstöðum. Bæði verslanir og eins Hús handanna sem er með hönnunarvörur til sölu.

Kvöldverður var snæddur á Hótel Héraði þar sem við gistum en „hamingju stund“ á barnum var notaleg. Um kvöldið voru sögur sagðar og slegið á létta strengi. Það voru sáttar konur sem gengu til náða þetta kvöldið.

Sólin vakti okkur um morguninn og eftir morgunverð var sest út í sólina og notið veðurblíðunar áður en haldi skyldi heim á leið. Enn einn frábær námskeiðsdagur að baki. Þvílík forréttindi að tilheyra svona flottum og sterkum hóp kvenna. Hér má sjá myndirfrá námskeiðsdeginum.

Kveðja

Kæru félagar

Takk kærlega fyrir skemmtilegan og fróðlegan vetur og vonandi hafi þið það sem best í sumar, njótið náttúrunnar og góða veðursins. Ég þakka kærlega fyrir mjög skemmtilegan tíma sem formaður. Það var ögrandi verkefni sem ég tók að mér í upphafi og sé ekki eftir því. Ég hef kynnst alveg hreint frábærum samstarfskonum í gegnum árin og einnig verið í meira sambandi við aðra félagsmenn. Það verður gaman að koma á fundi næsta vetur og taka þátt í starfinu með Faghópnum. En eins og ég hef alltaf sagt, Faghópurinn er við og við erum Faghópurinn.

Kærar sumarkveðjur,

Kristín Sigurðardóttir