Kynning á Snorra-Eddu

Alexandra Sól og Amanda Mist

Comment Stream

2 years ago
0

Snorra-Edda er ritverk Snorra Sturlusonar og fjallar um goða- og skáldskaparfræði og er talin hafa verið samin á árunum 1220-1230. Snorri mun sjálfur hafa gefið riti sínu nafnið Edda sem síðar var kennd við höfund sinn. Hetið Edda hefur frá 14. öld verið notað í merkingunni skáldskaparfræði en deilt hefur verið um upprunalega merkingu orðsins.

Snorra-Edda skiptist í fjóra hluta:
- Formáli / Prologus
- Gylfaginning
- Skáldskaparmál
- Háttatal

Snorri byggir á mörgum heimildum um fornan átrúnað, einkum eddukvæðum og eflaust ýmiss konar munnmælasögum. Þar rekst hvað á annað. Snorri verður því að velja og hafna, og þótt honum takist langoftast vel upp, tekst honum þó ekki að búa til heilsteypt trúarkerfi úr svo sundurlausu efni. Fyrir vikið verður til einstakt rit með kátlegum frásögnum úr lífi goðanna.

Formið á Snorra-Eddu er eins og tíðkaðist í kennslubókum á miðöldum. Í slíkum bókum greiðir kennari (magister) góðfúslega úr spurningum nemanda (discipulus) en getur stundum ekki stillt sig um að gera góðlátlegt grín að fákænsku spyrjandans.

Snorri er kristinn en efni bókar hans er aftur á móti heiðið. Í formálanum (Prologus) gerir hann því fyrst grein fyrir sköpun heimsins samkvæmt kristnum trúarhugmyndum en síðan setur hann fram tvær athyglisverðar tilgátur um upptök ásatrúar. Þannig er næsta víst að hann verður ekki sakaður um villutrú. Síðar í verkinu minnir hann lesanda öðru hverju á að trúa frásögninni ekki bókstaflega.

Áhrif

Snorra-Edda varð íslenskum skáldum um aldir eins konar kennslubók. Rímnaskáldin sóttu gjarnan fyrirmyndir í Snorra-Eddu og tóku þannig við af dróttkvæðum skáldum og notuðu kenningar og heiti í skáldskap eins og þau. Snorra-Edda átti því áreiðanlega sinn þátt í að viðhalda samhenginu í orðaforða málsins og Snorra heppnaðist ætlunarverk sitt að nokkru með ritun bókarinnar þótt ekki tækist honum að lengja lífdaga dróttkvæðanna sem skáldskapargreinar.