Fréttir í maí 2015 frá Grunnskólanum á Ísafirði

Forsíðumyndin að þessu sinni er af stoltum fjórðu bekkingum með tómataplönturnar sínar.

Það er orðið nokkuð langt frá síðasta fréttabréfi og alltaf mikið um að vera í skólanum.  Á heimasíðu skólans koma alltaf inn nýjustu fréttir af því sem verið er að fást við, heimsóknum sem við förum í eða fáum og sérstaklega skemmtilegum verkefnum.  Hlekkurinn á heimasíðuna er http://grisa.isafjordur.is/

Tæknimálin

Við erum enn að fikra okkur lengra áfram í því að láta upplýsingatæknina vinna með okkur að fjölbreyttari kennsluháttum.  Það er mikilvægt af ýmsum ástæðum.  Nemendur hafa almennt talsverðan áhuga á tæknimálum og þess vegna virkar tækninotkun hvetjandi, en það er ekki eina ástæðan.  Auðveldrara verður að koma til móts við fleiri nemendur með aukinni fjölbreytni.  Það að geta skilað verkefnum á eins fjölbreyttan hátt og nemendur gera nú, gerir þeim kleift að vera meira skapandi í vinnu sinni og virkjar þar með mun fleiri svæði í heilanum.  Í atvinnulífinu er á öllum sviðum leitað eftir starfsmönnum sem hafa yfir að ráða skapandi hugsun og hæfileikanum til að vinna vel með öðrum.  Því erum við viss um að það að þjálfa nemendur í skapandi hugsun og kenna þeim vinnubrögð sem byggja á samvinnu skili þeim góðum undirbúningi undir það sem framtíðin mun krefjast af þeim.  Hér að neðan er teiknimyndasaga sem unnin var í Comic Maker.  Þessi saga er gott dæmi um hvernig myndmál hjálpar til við ritun hjá ungum nemendum.

En það eru ekki bara nemendurnir sem eru að læra.  Kennarar skólans hafa bætt við sig gríðarlegri tækniþekkingu í vetur.  Nemendur hafa nú aðgang að fjölmörgum myndböndum sem geta hjálpað þeim, til dæmis í stærðfræðináminu, og mikil áhersla er lögð á að kenna þeim að vinna með upplýsingar sem finna má á netinu.  Hér er dæmi um hlekk sem nemendur í 8.bekk fengu með leiðbeiningum til að vinna eftir í stærðfræði. https://tackk.com/hagstofuverkefni

Viðhorf foreldra og nemenda

Mat á öllum sviðum er einn af grundvallarþáttum í nútíma skólastarfi. Nemendur fá mat á verkefni sem þeir skila inn og við fáum samanburð á námsárangri við aðra skóla landsins í gegnum samræmd próf.  En við þurfum að meta starf okkar á fleiri sviðum og það verður best gert með upplýsingum frá foreldrum og nemendum.  Í síðasta fréttabréfi birtust niðurstöður úr könnun um samskipti og líðan nemenda á unglingastigi.  Hér koma niðurstöður frá mið- og yngsta stigi.  Spurningarnar eru breytilegar eftir aldri nemenda en við vonum að niðurstöðurnar gefi raunhæfa mynd af því hvernig nemendur upplifa samskipti við jafnaldra sína.  Svörun bæði á mið-og yngsta stigi var 90%.  Það verður þó alltaf að hafa í huga að svör svo ungra barna endurspegla aðeins líðan þeirra á þeirra stundu sem þau svara spurningunum.  Þetta er aðeins lítið brot af svörum nemenda, ítarlegar niðurstöður munu birtast í sjálfsmatsskýrslu skólans sem verður birt á heimasíðunni í lok júní.  Kennarar hafa verið að vinna með niðurstöður sinna bekkja á margvíslegan máta og einnig hefur námsráðgjafi komið að þeirri vinnu þar sem ástæða hefur þótt til.

Hér má sjá að yfirleitt líður nemendum á þessu stigi ágætlega í skólanum.  Það koma þó upp hnökrar í samkiptum þeirra á milli eins og við má búast.  5% nemenda segja að það komi oft fyrir að aðrir nemendur séu vondir við þá eða særi þá.  Þetta er í ágætu samræmi við þann fjölda mála sem við þurfum aðstoða nemendur við að leysa úr. 25% nemenda segja að það komi stundum fyrir að aðrir séu leiðinlegir við þá, það eru yfirleitt einstök ágreiningsmál sem leysast fljótt og vel.  

Hér má sjá að yfirleitt líður nemendum vel þegar þeir fara í skólann, þó eru tæp 7% sem segja að þeim líði ekki vel.  Flestum líkar vel við bæði kennarana sína og bekkjarfélaga. Í gögnum okkar kemur fram að 15% nemenda á þessu stigi líður ekki vel þegar þeir eiga að lesa, það er talsvert áhyggjuefni og 12% segja að þeim líði illa þegar þeir hugsa um leikfimi.   Hvað veldur því vitum við ekki en ef þið hafið einhverjar vísbendingar um hvað þar er á ferðinni þætti okkur gott að fá að vita af þeim.

Í skólanum er unnið með samskipti alla daga.  Við teljum mikilvægt að gera greinarmun á ágreiningi sem verður milli jafningja og einelti.  Það er eðlilegt að í stórum barnahópi komi upp ágreiningsmál sem getur tekið á að leysa úr.  Sumir nemendur eru líka mjög stjórnsamir og lenda í vandræðum vegna þess, eða eiga í vandræðum með að stjórna eigin hegðun og valda því öðrum truflunum eða leiðindum.  Einelti er hinsvegar hugsað til að gera lítið úr einhverjum eða valda annarsskonar vanlíðan. Á heimasíðu skólans er eyðublað sem hægt er að nota til að tilkynna um grun um einelti. Við hvetjum ykkur til að nota það ef þið hafið slíkan grun því við verðum að hjálpast að við að uppræta þannig hegðun.  Hún er slæm bæði fyrir þolanda og geranda.  

Þjóðleikur

Í vetur tóku nokkrir skólar á Vestfjörðum þátt í verkefni sem kallast Þjóðleikur og er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins og fjölmargra aðila á landsbyggðinni.  Leikhópar nemenda fá í hendur verk sem eru skrifuð sérstaklega í þessum tilgangi og setja svo upp stuttar leiksýningar.  Hóparnir fá bæði leiklistar- og tækninámskeið frá fagaðilum á vegum Þjóðleikhússins og er það mikill fengur fyrir skapandi krakka að fá slík tækifæri.  Hópur nemenda úr okkar skóla æfði stíft fyrir Þjóðleik alveg frá því að skóli hófst eftir áramótin. Uppskeruhátíðin var svo nú í byrjun maí.  Þá hittust leiklistarhópar frá Sauðárkróki, Hólmavík og Ísafirði og sýndu verk sín í Edinborgarhúsinu.  

Leikhópurinn ,,Gölluðu drengirnir" frá Grunnskóla Ísafjarðar sýndu Útskriftarferðina eftir Björk Jakobsdóttur.

Heimanámsstefnan

Viðhorf foreldra til heimanámsstefnu skólans var kannað nú um miðjan apríl.  Svör fengust frá 62% foreldra.   Í stuttu máli má segja að niðurstöðurnar séu þær að um 80% þeirra foreldra sem svöruðu séu ánægðir með stefnuna eins og hún er.  Við höfum því ákveðið að gera ekki breytingar á stefnunni að sinni.  Áfram verður því aðeins gert ráð fyrir heimalestri á hverjum degi hjá öllum nemendum, annað heimanám verði samkvæmt samkomulagi við foreldra.  Í athugasemdum komu fram vísbendingar um að betur megi nýta það að hafa samráð við foreldra um sérstök þjálfunaratriði og munum við hafa það í huga næsta vetur.  Í könnuninni var einnig spurt um hvernig foreldrum gengur að fylgjast með heimalestri barna sinna.  Í svörum við því kom fram að á yngsta stigi fylgjast rúmlega 95% foreldra alltaf með heimalestri, á miðstigi eru það 66% og á unglingastigi ekki nema 11%.  Það er auðvitað eðlilegt að nemendur fari að bera meiri ábyrgð á námi sínu sjálfir eftir því sem þeir eldast en þetta eru samt sem áður sláandi tölur.  Það er erfitt þegar nemendur eiga í basli með lesturinn og litlar framfarir verða en þá skiptir úthald foreldra við að hvetja og hlusta á þá meginmáli, ef foreldrar gefast upp er nokkuð ljóst að möguleikar á framförum minnka.  Eftir að ákveðinni tækni er náð byggist góð lestrarfærni fyrst og fremst á þjálfun. Eldri nemendur segja gjarnan líka að þeim finnist leiðinlegt að lesa og því láti þeir það bara eiga sig.  Samkvæmt þessu geta foreldrar gert mun betur í að hvetja börnin sín til lestrar með því að spyrja þau hvað þau eru að lesa og ræða við þau um efni námsbókanna.  Þær samræður geta mjög vel verið fræðandi fyrir foreldra og orðið til þess að foreldrar viti meira um hvað börnin eru að fást við í skólanum.  Aðrar niðurstöður úr þessari könnun verða einnig birtar í sjálfsmatsskýrslu skólaársins.

Vorverkin

Þó að vorið hafi verið fremur kalt til þessa er vordagskrá skólastarfsins óðum að fara af stað.  Það eru mörg verkefni sem snúast um að fræðast um umhverfi sitt eða vinna eitthvað í þágu samfélagsins sem auðveldast er að vinna á vorin og haustin og eru því sett á dagskrá í ágúst og maí. Ávalt er þó miðað við að hafa skóladag yngri nemenda sem næst venjulegum tímasetningum svo foreldrar geti treyst því að börnin þeirra séu í umsjón fullorðinna samkvæmt stundatöflu.  Við hvetjum ykkur til að taka þátt í vorverkunum með okkur ef þið hafið tök á því.  Upplýsingar um hvað er á dagskrá einstakra árganga koma fram á vikuáætlunum og hjá eldri nemendum á heimasíðunni eða í tölvupósti.  

Að lokum

Skólaárinu fer senn að ljúka, við hvetjum ykkur til að koma og skoða óskilamunina sem nóg er af hjá okkur og í Sundhöllinni.  Skólaslitadagurinn er 5.júní.  Þá fá yngri nemendur einkunnir afhentar klukkan 10 að morgni en unglingastigið fær sínar einkunnir í kirkjunni kl. 20. Þar fer einnig fram útskrift 10.bekkjar við hátíðlega athöfn.  

Lokalag frá 1.ÁH