Hugleiðingar málstofunema um lýðræðið

Soðið upp úr pælingum nemenda

Lýðræðið er flókið. Það má nálgast það úr mörgum áttum: líta á það sem einhverskonar stefnu, staðblæ eða anda eða skoða það sem safn formlegra einkenna í tilteknu samfélagi. Málið flækist enn þegar reynt er að meta þá útgáfu þess sem við köllum meirihlutalýðræði.

Grundvallareinkenni lýðræðis virðist vera sú hugmynd að fólk eigi að fá að ráða sér sjálft, taka ákvarðanir sem snerta sjálft sig og hagsmuni sína. Grundvallarþörf í lýðræðissamfélagi er því að fólk sé fært um ákvarðanatöku, hafi einhverja hagsmuni og hafi löngun eða vilja til að gæta þeirra.

Lýðræðissamfélag krefst stofnana. Stofnanir sem styrkja það og festa í sessi. Kannski er meirihlutalýðræði dæmi um slíka stofnun. Þá er meirihlutalýðræði hugsanlega nauðsynlegt lýðræðinu, ekki vegna þess að það sé eina hugsanlega gerð þess, heldur vegna þess að það gefur lýðræðinu styrk og stöðugleika.

Ef frumforsendan er rétt, þ.e. að lýðræði hafi einhverskonar anda sem einkennir lýðræðisleg samfélög virðist einnig óumdeilanlegt að ýmsar afleiðingar lýðræðislegs stjórnarforms virðast í hróplegu ósamræmi við slíkan anda. Við getum nefnt jákvæða mismunun þar sem fólki er hafnað á grundvelli þátta sem ekki eru á valdi þess í þeim tilgangi að stuðla að einhverskonar jöfnuði. Við getum einnig skoðað hugmyndir eins og þá að allir skuli á jafnréttisgrundvelli taka þátt í kostnaði við heilsugæslu og lyfjakaup – án tillits til þess hvort þeir hafi val um að njóta þjónustunnar eða ekki. Hvorttveggja eru raunveruleg dæmi úr íslenskum veruleika.

Það er oft á jöðrum lýðræðisins, hjá minnihlutahópum eða jaðarsettum sem hin lýðræðislega deigla er mest og kröfur lýðræðisins skýrastar. Vill þá oft rekast á hinn lýðræðislegi vilji meirihlutans og réttur eða hagsmunir minnihlutans. Það er auðvelt að samþykkja að allir skuli taka þátt í að greiða lyf, sérstaklega þegar maður þarf ekki á slíkjum lyfjum að halda sjálfur. Þá er auðvelt að gleyma hagsmunum íbúa í smærri byggðum ef maður hefur ekki tengsl við þær. Einhverskonar jákvæð mismunun virðist oft augljós og sjálfsögð með hliðsjón af hagsmunum. Það er því augljóslega erfitt að átta sig á „lýðræðisandanum“ og hann er í besta falli þversagnarkenndur – í versta falli illskiljanlegur.

Meirihlutalýðræði hefur ýmsar hliðar og ýmsa anga. Jafnvel þótt við gefumst upp á hinu margþætta inntaki hugtaksins „lýðræðis“ þá er ljóst að jafnvel hugtakið „meirihluti“ er margþætt. Í stjórnkerfi þar sem meirihlutanum eru markvisst falin völd leynast ýmsar glufur þar sem hlutirnir flækjast. Valdið vill oft safnast á fáar hendur í framkvæmdinni. Og þótt við leggjum til hliðar tal um hagsmuni og skoðum eingöngu úrslit kosninga er málið samt flókið. Við eigum raunveruleg dæmi þar sem „meirihlutinn“ komst að gerólíkum niðurstöðum í sama málinu í tvennum kosningum. Freistandi væri að álykta sem svo að aðstæður hafi breyst eða þjóðin skipt um skoðun. Raunin er sú að í millitíðinni fengu mun fleiri kosningarétt en áður. Meirihlutinn hefur margar hliðar.

Þrátt fyrir að lýðræðið styrki sig í sessi með stofnunum, hefðum og siðum þá brestur því samt sem áður oft kraft til að fylgja markmiðum sínum til enda. Það er hægt að kjósa um alla skapaða hluti – en á endanum virðist ævinlega vera rými fyrir hina sterku eða áhrifamiklu til að sölsa til sín vald. Og vald og lýðræði fara ekki alltaf vel saman. Aukið aðgengi á valdi virðist jafnvel valda minnkuðum áhuga á lýðræðinu og grundvelli þess. Sem er hættulegt í ljósi þess að vald hefur oft á endanum meiri áhrif en hugsjónin ein. Þá bendir ýmislegt til þess að lýðræðið sé ekki eins óumdeilt eða jafn rótfast og maður skyldi halda. Það má velta því fyrir sér hvort óumdeilanleiki lýðræðis stafi ekki af einhverju leyti af því hve auðvelt er að viðhalda ójafnræði og valdaójafnvægi innan þess.

Hvernig á síðan að taka ákvarðanir? Jafnvel þótt við gefum okkur að á mörgum málum séu aðeins tvær hliðar, þau séu annað hvort eða, þá er augljóst að svo er ekki alltaf. Það er oft rými til málamiðlana – sem of sjaldan er nýtt. Stjórnvald lítur oft á það sem sína skyldu og sinn rétt að taka ákvörðun út frá einföldum vilja meirihluta. Ef helmingur vill eyða milljón í styttu af frægu skáldi, fjórðungur vill eyða hálfri milljón og fjórðungur vill engu eyða, því skyldi þá hin lýðræðislega niðurstaða vera að byggja, að vilja meirihlutans, styttu fyrir milljón? Hvers vegna ekki að byggja fyrir 6 - 700 þúsund? Við höfum of fá dæmi um það að meirihluti taki ríkulegt tillit til þeirra sem eru honum ósammála, þótt slík dæmi séu til og jafnvel hérlendis (þar sem meirihluti leyfði framkvæmdir sem hann var á móti vegna málflutnings þeirra sem málið snerti). Það er óvitlaust að ætla að meðferð meirihluta á minnihluta sé ágætur mælikvarði á styrk og heilbrigði lýðræðislegs stjórnarfars.

Samfélag styrkist af fjölbreytni. Einstaklingar sem eru drifkraftar eigin lífs mynda sterkara samfélag en safn þeirra sem láta aðra taka ákvarðanir eða fylgja línum annarra. Stundum er sagt að áhuginn á lýðræðinu sé að dofna. Það megi m.a. sjá á minnkandi kosningaþátttöku. Hættan af slíku sé samsvarandi því þegar fámennar klíkur sölsa undir sig lýðræðislegar stofnanir (eins og flokka), snaggaralegir hagsmunahópar geti þá farið að ráðskast með hið lýðræðislega vald. En á móti má benda á að líklega hefur umræða um hagsmunamál aldrei staðið í meiri blóma. Einstaklingar tjá sig stöðugt um hagsmunamál og taka afstöðu; skrifa undir áskoranir og stuðningsyfirlýsingar. Áhugi fólks á málefnunum virðist aldrei hafa verið sterkari. Við stöndum því líklega á einhverskonar tímamótum í því hvernig hinn lýðræðislegi vilji er skilinn. Líklega eru breytingar framundan.

Þær breytingar munu þurfa að grundvallast á hinum lýðræðislega staðblæ eða anda – og þeim þarf að fylgja lýðræðislegt uppeldi eða menntun. Slíkur stuðningur við lýðræðið er og verður samofinn því.