Vorfundur Grunns

Ísafjörður 20.-22. maí 2015

Mynd tekin í Ósvör í Bolungarvík

Vorþing Grunns á Hótel Ísafirði - Fundargerð

20. – 22. maí 2015

Miðvikudagurinn 20 maí

Byrjað var á hádegisverði á Hótelinu á Ísafirði og síðan gengið til dagskrár.

Margrét Halldórsdóttir setti fundinn, bauð fundarmenn velkomna og skipaði Ragnar Þorsteinsson fundarstjóra þingsins.

Ragnar tók við fundarstjórn, kynnti aðra stjórnarmenn sem eru auk hans, Auður Árný Stefánsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir og Sigurlína Jónasdóttir. Hann fór yfir dagskrá frá 13:00 til 16:15 og upplýsti að Hildur og Sigurlína yrðu ritarar meðan á þinginu stæði.

13:15 - 14:30 Upplýsingatækni í skólum

Að innleiða spjaldtölvur í grunnskólum Kópavogs.

Fyrsta innlegg var frá Kópavogi sem Anna Birna Snæbjörndóttir flutti.

Kópavogur tók ákvörðun um að kaupa spjaldtölvur í 5. - 10. bekk og eftirfylgdin var í höndum menntasviðs. Farið var í ferðir innan lands og utan til að kynna sér hvernig unnið er með spjaldtölvum með nemendum og hvernig best væri að nýta þær í námi barnanna. Lögð var mikil áhersla á að stjórnendur væru með frá upphafi í verkefninu. Björn Gunnlaugsson sagði frá fyrirhuguðum tækjakaupum í Kópavogi markmiðið er að allir nemendum frá 5. til 10. bekk hafi aðgang að tölvum. Einnig sagði hann frá því hvernig verkaskipting verður hjá verkefnastjóra, kerfisstjóra og kennsluráðgjöfum sem mynda teymi um innleiðingu og skipulag.

Sjá nánar um efnið í meðfylgjandi glærum.

Allir þátttakendur kynntu sig og Maríu Hrönn var færð kaka í tilefni afmælis hennar.

Að innleiða spjaldtölvur og nýta fjölbreytt forrit í kennslu á Ísafirði.

Annað innleggið var frá Ísafirði sem María Hrönn Valberg og Helga Snorradóttir fluttu.

María Hrönn sagði frá að byrjað hefði verið að kanna stöðu mála varðandi tölvumál/spjaldtölvur/netteningar o.fl.. Lagt upp með að vera með góða fræðslu fyrir þá kennara sem væru áhugsamir m.a. forritunarnám og reynsla hefur sýnt að börnin fara langt fram úr kennurunum. Hún sagði frá því að spjaldtölvur væru líka nýttar í leikskólanum, en hún er stjórnandi yfir honum jafnframt grunnskólanum á Flateyri. Nota facebook og youtube mjög mikið til samskipta við nemendur og foreldra og ýmis forrit til að skipuleggja námið o.s.frv. Í lokin sagði hún frá hvernig hún sæi möguleikana í framtíðinni s.s. með að kenna meira í gegnum fjarkennslu.

Helga sagði frá því hvernig spjaldtölva er notuð í kennslu í 5. bekk í Grunnskóla Ísafjarðar, en hún er kennari þar. Benti á mörg fjölbreytt og gagnleg forrit sem notuð hafa verið í bekknum s.l. vetur. Í lokin sagði hún frá könnun sem gerð var meðal nemenda eftir veturinn og megin niðurstaðan er að þau eru ánægðari með námið og agavandamálum hefur fækkað stórlega.

Sjá nánar um efnið í meðfylgjandi glærum.

Upplýsingatækni í Árborg

Þriðja innleggið var frá Árborg sem Þorsteinn Hjartarson flutti. Hann byrjaði að segja frá því að hvernig staðan væri varðandi þráðlaust net í Árborg, en verið er að bæta það eftir föngum. Mjög mikill áhugi er fyrir því að fá spjaldtölvur í kennslu í leik- og grunnskólum Árborgar. Fræðslu hefur til dæmis verið mætt með því að sækja reynslu í aðra grunnskóla s.s. voru ákveðnir kennarar í læri í Norðlingaskóla í Reykjavík heilan vetur. Hann fór yfir hvernig hver og einn grunnskóli og leikskóli er að vinna með spjaldtölvur/upplýsingatækni í Árborg. Í lokin fór hann yfir næstu skerf í Áborg varðandi innleiðingu á upplýsingatækni í sveitarfélaginu.

Sjá nánar um efnið í meðfylgjandi glærum.

Umræður voru síðan á borðum um málefnið.

15:00 – 16:15 Samþætting í skólastarfi

 • Reykjavík, Auður Árný Stefánsdóttir

Auður Árný sagði frá að settir hafa verið saman hópar í Rvk. til að samþætta skóla- og frístundastarf. Málþing var haldið í júní 2013 þar sem fjallað var um hvað væri hægt að læra af hver öðrum og möguleikar á samstarfi. Gera þyrfti góðan tíma til samráðs. Talið var að mikilvægt væri að finna eitt starfsheiti fyrir starfsmann sem ynni bæði í skólunum og frístundaheimilunum. Misjafn eftir skólum hvernig þetta er útfært og ekki komið allsstaðar. Samþætt stundatafla í 1. - 4. bekk. Aðalávinningurinn er tenging milli frístundar og skóla og samnýting húsnæðis. Að samþætta skóla og frístund er ekki síst mikilvægt fyrir erlendu börnin. Dalskóli er skóli á mörkum skólastiga, þau eru komin langlengst enda var skólinn stofnaður sem leik og grunnskóli og frístund. Klébergsskóli þar er skólastjórinn einnig yfirmaður frístundarinnar og sundlaugarinnar. Í Norðlingaskóla vinna kennarar og frístundafræðingar alveg samhliða. Kostur er við það að fá nýja stétt inn í skólann, eykur víddir.

 • Dalvík – Helga Björt Möller

Helga Björt sagði frá þjónustu við íbúa af erlendum uppruna. Fyrir 7 árum fór íbúum á Dalvík af erlendum uppruna að fjölga mjög mikið. Fengu þau styrk til að halda íslenskunámskeið sem var vel sótt. Þau fóru einnig af stað með söguskjóður þar sem íslenskir og erlendir foreldrar hittust í leikskólanum og bjuggu til námsefni upp úr sögubókum, það var einnig vel sótt. Mótuð var fjölmenningarstefna 2011, túlkaþjónusta var aukin, notaðir símatúlkar ef túlkur er ekki svæðinu, en ef fleiri en einn fundur er áætlaður er túlkurinn fenginn á staðinn, aukning á þýðingu ganga, eins og t.d. umsagnir um börnin. Mjög mikil símenntun fyrir skólafólk, eins og t.d. um fjölmenningarlega kennslu. Kannanir til foreldra sendar á pólsku og ensku fyrir þá sem þurfa það, og þannig er svörun frá foreldrum af erlendum uppruna mun meiri. Kröfur á íþróttafélög um að fjölga erlendum börnum sem iðkendum hefur skilað miklu, íþróttafélögin þýddu sínar auglýsingar og ítrekuðu við þau mikilvægi þess að fá börnin til þeirra. Það eru hvatagreiðslur og þannig hægt að fylgjast með iðkendum og bregðast við því. Hefur skilað breyttu viðhorfi margra af starfsfólkinu, aukning í tómstundaiðkun erlendra barna, aukning á þátttöku erlendra forelda í leikskólastarfi, fleiri einstaklingar af erlendum uppruna í starfsmannahóp skólanna. Foreldrarnir vilja ekki fréttabréf, þeir vilja skýrar einfaldar upplýsingar, því þeir vilja læra íslensku.

 • Ísafjörður – Margrét Halldórsdóttir

Margrét sagði frá að í sveitarfélaginu voru áhyggjur af börnum sem ekki voru í tómstundum, hugmyndin var að brjóta upp skóladaginn og var verið að leita eftir að fá samtal á milli kennaranna og tómstundafræðinganna og að allir hefðu greiðan aðgang að tómstundastarfi. Stundatafla dagsins var skorin í sundur og tómstundir þeirra settar inn. Nemendur í 3.-4. bekk voru frekar eftirlitslausir meðan þeir biðu eftir að fara í tómstundir efir skóladaginn. Ferlið var kynnt vel fyrir öllum og flestir sáu strax möguleikana í þessu. Aðstæður á Ísafirði eru mjög góðar, allt er á sama blettinum, Grunnskólinn, Dægradvölin, íþróttahúsið og tónlistarskólinn. Foreldrar gátu valið hvað börnin færu í, kom á óvart hvað frjáls leikur var vinsæll og útiveran. Lögð áhersla á að börnin velji með foreldrunum hvað þau vilja gera. Myndað var teymi í upphafi og frá upphafi var ákveðið að láta þetta ganga og það hefur gert það og samskipti hafa verið góð. Athugað var lagalega hvort að þetta mætti, þar sem skóladagurinn var lengdur og á hvers ábyrgð nemendurnir væru og þeir eru alltaf á ábyrgð skólans. Langflestir foreldrar ánægðir (94%), skoðað var hver óánægja væri og brugðist við því.

 • Umræður á borðum – 30 mín

Fimmtudagur 21. maí

9:00 – 10:00 Sambandið – Ýmis rekstrarmál skólaskrifstofa

Ragnar setti fundinn og bauð fundargesti velkomna, sérstaklega þá sem voru komnir til að vera með dagskrárliði dagsins. Hann fór yfir dagskrána og skipulag sem yrði yfir daginn.

Sunginn var afmælissöngurinn fyrir afmælisbarn dagsins sem var Anna Magnea.

Gengið var síðan til dagskrár

Gögn um rekstur skóla

Valgerður Freyja Ágústsdóttir fór yfir hvaða gögn eru inn á heimasíðu sambandsins. Þetta eru gögn/upplýsingar sem eru mjög upplýsandi bæði fyrir leikskóla og grunnskóla. Hér er um að ræða lykiltölur um skólastarf, fjármál, stefnu sambandsins o.s.frv. Hún hvatti þingmenn eindregið að kynna sér síðuna og nýta sér það sem er þar í boði.

Margrét tók síðan við stjórnin á þessum lið. Kynnti yfirheiti hópa og skipað forsvarmenn fyrir þeim. Þingmenn völdu sér síðan í hvaða hópa þeir færu til að ræða málin enn frekar.

10:00 – 12:00 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Guðni Olgeirsson og Íva Sigrún: Ný stofnun, Menntamálastofnun, er að verða til og mun nýtast félögum í Grunni vel. Árið 2016 verða 20 ár síðan grunnskólinn fór til sveitarfélaganna og til umhugsnar að hvernig eigi að fara í þau tímamót. Nýtt umhverfi í mennta-og menningarmálaráðuneytinu, fimm starfsmenn þar fóru yfir í nýju stofnunina, þannig að breytingar eru þar og endurskipulagning, sem verður mikil áskorun. Til afgreiðslu á þinginu með breytingar á grunnskólalögum varðandi nokkur atrið, t.d. Tálknafjarðarleiðin svokölluð, skiptin ríkis og sveitarfélaga.

Breytingar á aðalnámskrá varðandi lykilhæfni. Breytt matsviðmið og lokamat í 10. bekk mun breytast vorið 2016. Engar tölur sem fylgja lokamatinu heldur bara lýsing. Breyta þar lykilhæfnikaflanum, taka út námsgrein um vinnubrögð kennara, lokaeinkunn í lykilhæfni á ekki að koma fram í vitnisburðinum í 10. bekk og þarf því líka að breyta námskránni varðandi það, annars er engin önnur breyting varðandi lykilhæfnina. Verður kynnt með formlegu hætti með reglugerðarbreytingum. Síða á nams.is um námsmat í vinnslu, ekki búið að opna hana á vefnum, verður tilbúin í síðasta lagi í haust.

Bætt hefur við tveimur einkunnum c+ og b+, ekki verður þó bætt við nýjum matsviðmiðum. Líka skoðað að setja stig á bak við einkunnirnar, ekki búið að ganga frá þeirri útfærslu.

Búið að opna vefinn starfsthrounkennara.is, á eftir að kynna það sérstaklega.

Björn Leví Gunnarsson um rafrænan vitnisburð: https://www.youtube.com/watch?v=mygzi7prNtA&feature=youtu.be

Vinnuhópur um málið, skil eru í mars 2016 með nokkrum vörðum á leiðinni. Í aðalnámskrá eru skilgreind námsviðmið, miðast við að skilgreiningar matsviðmiðanna séu mjög skýr. Óskað er eftir athugasemdum og sjónarmiðum um rafrænu skirteinin og uppbyggingu þeirra. Fólk sendi Gylfa Jóni tölvupóst með sínum athugasemdum og/eða spurningum, netfangið er gylfi.jon.gylfason@namsmat.is.

Námsmatsstofnun (Menntamálastofnun)

Gylfi Jón: Það er ekki búið að samþykkja frumvarpið um Menntamálastofnun, þetta eru drög, en miklar líkur á að þetta verði samþykkt. Fimmti hver nemandi sem útskrifast getur ekki lesið sér til gangs að meðaltali. Stofnað verður ráðgjafateymi sem verða staðsett í Menntamálsstofnun og verði til ráðgjafar fyrir sveitarfélögin vegna Hvítbókar. Ráðherra gerir sáttmál við hvert sveitarfélag um að ná markmiðum Hvítbókar. Árleg námsstefna um læsi í hverju kjördæmi, verður fyrir alla kennara og alla stjórnenda á þeirra svæði, fer út í nærsamfélagið, þróaðar verði lesskimunarpróf fyrir 4-16 ára, gerða verði reglulegar mælingar í hverju sveitarfélagi og niðurstöðurnar notaðar á markvissan hátt. Gerð verður heimasíða og mun ráðgjafateymið halda utan um heimasíðuna og teymið mun einnig líka halda þétt utan um leikskólann. Tillaga um að Sprotasjóður og aðrir þróunarsjóðir verði með sérstaka áherslu á læsi og kennaramenntun verði endurskoðun. Stefnan er að allir eigi að fara læsir út úr grunnskólanum, miðað er við að nemendur nái 350 atkvæðum í loka 8. bekkjar og að skólarnir hafi þá tvö ár til að ná þeim nemendum sem hafa ekki ná því upp í það. Gerður verði þjóðarsáttmáli um læsi við hvert sveitarfélag sem bæjarstóri hvers sveitarfélags og ráðherra skrifa undir.

13:00 – 15:30 A - Vinnumat í grunnskólum – innleiðing og eftirfylgni

 • Yfirlit – 20 mín , Ragnar Þorsteinsson
 • Samræða á 4 borðum - 4x20 mín
 • Samantekt og umræður – 30 mín Ragnar Þorsteinsson

13:00 – 15:30 B – Leikskólamál –Stjórnsýsluhús 4. hæð, Sigurlína Jónasdóttir og Hildur Skarphéðinsdóttir

 • Ytra mat leikskóla

Helga Björg frá Reykjavík: Teymi sem er frá tölvudeildinni og ráðgjafarnir sem hafa umsjón með ytra matinu. Foreldrakannanir sendar út annað hvert ár, leikskólarnir valdir af handahófi, en einnig hægt að óska eftir að ákveðinn skóli verði skoðaður, 12 leikskólar á ári skoðaðir. Skýrslurnar síðan settar inn á netið. Þetta eru mjög stuttar og hnitmiðaðar kannanir, þýddar og staðfærðar fá Education Scotland og það er alltaf mjög góð svörun. Einnig er rýnihópur barna og þar er demantaferlið notað (diamond ranking) mjög góð aðferð til að fá skoðanir barnanna. Myndir eru teknar af öllu sem þau gera í skólanum og síðan fá þau að velja myndir eftir því sem þeim finnst leiðinlegast og skemmtilegast að gera. Sjá nánar inn á skolarogfristund.is

 • Flutningur á milli skólastiga

Hildur Skarphéðinsdóttir Reykjavík og Sigurlaug Bjarnadóttir Kópavogi sögðu frá starfshópum sem voru að störfum í þeirra sveitarfélögum um innritun tvisvar á ári í grunnskólann, með því væri hægt að taka inn yngir börn í leikskólann, skoðaðir voru kostir og gallar og nokkrar leiðir við þetta. Dýrt úrræði, gæti komið sér illa fyrir dagforeldrakerfið og svo er spurning hvort að börn geti verið 10,5 ár í grunnskóla.

Föstudagur 22. maí

9:00 – 10:00 Gönguhópar

Skipt var upp í 3 gönguhópa sem gengu um bæinn með leiðsögn og ræddi hver hópur sitthvort málefnið, málefnin sem rætt var um voru:

 • Læsi
 • Stærðfræði
 • Námsmat

Mikil ánægja var með þetta fyrirkomulag og heppnaðist það vel.

10:00 – 12:00 Sambandið

 • Umræða um ýmis mál

Klara: Kynningarátak um framtíð leikskólans um að fjölga leikskólakennara, Kolbeinn á Menntavísindasvið sér um átakið. Fleiri umsóknir um leikskólakennaranám, og mikil eftirspurn í diplómanám, en margir sem sækja um það uppfylla ekki skilyrðin. Sambandið hefur sett sér stefnumörkun um þetta og einnig var sent hvatningarbréf til sveitarfélaga og má sjá það í glærunum frá þeim. Nokkur sveitarfélög hafa gert vel í að fjölga leikskólakennurum og fengu Kópavogur og Ölfus Orðsporið fyrir það sem þau hafa gert. Mjög fáir sem sækja um leikskólakennaranám fá inngöngu og er mikið brottfall í leikskólakennaranáminu og fáir sem útskrifast. Átakið skilaði sér í fjölgun umsókna og sveigjanleiki og stuðning nokkurra sveitarfélaga átti sér stað. Skjal sent sveitafélögum um Framtíðarsýn leikskóla sem er afrakstur fundarherferða sem fór fram árið 2014 og Capacent sá um. Í skýrslunni er hægt að finna hugmyndir sem sveitarstjórnin og starfsmenn leikskóla geta farið í strax. Skýrslan er ekki löng og fundarmenn hvattir til að lesa hana. Ekki um sameiginlega stefnuyfirlýsingu í skýrslunni og óskað eftir hugmyndum fá fundarmönnum hver næstu skref ættu að vera.

Stofnaður var starfshópur um leikskólavist að loknu fæðingarorlofi, þar sem 6 mann skipuðu starfshópinn, og hefur hann skilað skýrslu til ráðherra sem fer síðan til þingsins þar sem þetta er þingsályktun. Niðurstaða hópsins var að áætlaður kostnaður við að bjóða leikskólavist frá 12 mánaða aldir er 5,5, milljarða, auka þarf húsnæðið til að bjóða upp á fjölgun og fjölga þarf starfsfólki um 700 manns.

Tónlistarskólamál: Skipaður starfshópur sem mótar tillögur um framtíðarfyrirkomalag tónlistarkennslu. Hópurinn hefur ekki hafið formlega störf en það fer að gerast.

Fjármögnun námsgangasjóðs og endurmenntunarsjóð grunnskóla er mjög óljós, ekki vitað með það. Það mun hafa neikvæðar afleiðingar, ótækt að þessir sjóðir séu ekki starfshæfir., nú þegar fara á í miklar breytingar og umbætur með Hvítbók.

Bjarni: Um heimild kennara til að starfa þvert á skólastig út frá sinni menntun. Þeir þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði til að geta gert þetta. Heimildarákvæði sem lítið hefur verið nýtt, ráðuneytið hefur skoðað að senda út bréf sem skýrir réttar stöðu þeirra kennara sem eru með þessa heimild. Þetta er til að reyna að tryggja samfellu á milli skólastiga. Ráðuneytið mælist til ákveðins verklag sem sjá má í glærum frá Sambandinu. Sambandið fundaði með ráðuneytinu og skýrt er að bréfið mun ekki leysa úr þessum vanda og tilganginum yrði því ekki náð. Síðan 17. mars s.l kom bréf frá ráðuneytinu þar sem óskað var eftir umsögn um tillögu á breytingu á lögum og má sjá það í glærum frá sambandinu. Sambandið telur þessa tillögu nokkuð skýra og gerði ekki athugasemd við breytinguna.

Hlutverk skólastjórnenda grunnskóla skjal sem er unnið í samvinnu SÍ og SNS, sjá glærur.

Vinnumat og kjarasamningur FG: staðan sem er uppi við samningaborð, þar eru hindranir, og þetta er orðið að samningaviðræðum, reynt að ná inn ákveðnum textum sem er ekki gott því þá er verið að breyta hugmyndafræðinni. Mikið vísað í gömul samkomulag og hefðir, hjá KÍ og þá erum við föst í gamla tímanum, verið að reyna að tala um þessar hindranir, sem geta valdið óánægju hjá félagsmönnum og því hefur ekkert breyst. Helstu ágreiningsefni má sjá í glærunum.

12:00 Þingslit

Ragnar Þorsteinsson fundarstjóri þakkaði síðan öllum fyrir þátttökuna og gaf Margréti Halldórsdóttur orðið og sleit hún þinginu.

Comment Stream